Ísafjarðarbær: Pacta ekki boðið að gera tilboð

Lögfræðistofunni Pacta, sem er með starfsstöð á Ísafirði var ekki gefinn kostur á að bjóða í innleiðingu persónuverndarlöggjafar og stöðu persónuverndarfulltrúa fyrir Ísafjarðarbæ.

Þetta staðfestir Kristján Ó. Ásvaldsson, lögmaður hjá Pacta.

Fram hefur komið í svörum Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra að  tilboð hafi komið frá þremur aðilum, Officio, Logos og Landslögum. Hann hefur hins vegar ekki svarað fyrirspurn Bæjarins besta um það hverjum var gefinn kostur á að bjóða í.

Þá var Bryndís Ósk Jónsdóttir, bæjarritari einnig spurð að því sama, auk þess sem hún var innt eftir því hver hafi tekið ákvörðun um það hverjir fengu boð um að gera tilboð í verkefnið. Fyrirspurninni hefur ekki verið svarað.

Fram kemur í fundargerð bæjarráðs 18. maí 2020 að lagt er fram til kynningar minnisblað Bryndísar Óskar Jónsdóttur, bæjarritara, dags. 15.5.2020, varðandi innleiðingu persónuverndarlöggjafar og stöðu persónuverndarfulltrúa. Bæjarráðið bókar að það „samþykkir tillögu bæjarritara um að leita eftir tilboðum vegna innleiðingar persónuverndarlöggjafar og stöðu persónuverndarfulltrúa.“

Var ákvörðun tekin í bæjarráði?

Næst er bókað um þetta mál um innleiðingu persónuverndarlöggjafar í bæjarráði 12. október 2020. Þar stendur í fundargerð:

„Lagt fram minnisblað Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra, dags. 9. október 2020, vegna persónuverndarmála hjá sveitarfélaginu. Lagt fram til kynningar.“

Þarna kemur ekki fram nein afgreiðsla né samþykkt. Hins vegar stendur í minnisblaðinu:

„Varðar: Innleiðingu persónuverndarlöggjafar og eftirfylgni.
Bæjarritari tók saman minnisblað um stöðu málsins sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs þann 18.maí s.l. Í niðurlagi minnisblaðsins óskaði bæjarritari eftir „heimild til að leita tilboðs hjá sérfræðingum í persónuverndarlöggjöf til að ljúka innleiðingu og taka að sér störf persónuverndarfulltrúa til tveggja ára.“
Leitað hefur verið til ýmissa aðila vegna málsins og leitað tilboða í verkefnið. Svigrúm á fjárhagsáætlun þessa árs fyrir aðkeypti þjónustu við innleiðingu persónuverndarlöggjafarinnar er um 3-4 milljónir Hagstæðasta tilboð í verkefnið kom frá Officio lögmönnum á Ísafirði. Undirritaður mun ganga til samninga við Officio ef ekki eru gerðar athugasemdir við það.
Birgir Gunnarsson bæjarstjóri“

Bæjarstjóri hefur sagt í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að ákvörðun um að semja við Officio hafi verið tekin í bæjarráði.

Bryndís Ósk Jónsdóttir, bæjarritari sat í stjórn Officio fyrstu mánuði fyrirtækisins, hún er nátengd stjórnarformanninum og eigandanum, hún leggur til að leitað verði eftir tilboðum, hún virðist sjá um þann þátt málsins og val á væntanlegum bjóðendum og miðað við stjórnskipulag bæjarins er það á hennar könnu að samþykkja reikninga frá Officio. Spurningin um hæfi hennar eða vanhæfi í málum sem varða Officio er mjög ofarlega á baugi.

-k

DEILA