Fastanefnd Bernarsamningsins um vernd villtra dýra, plantna og vistgerða í Evrópu hélt árlegan fund sinn um síðustu mánaðamót. Meðal mála sem lá fyrir nefndinni var kvörtun frá Landvernd og Gunnlaugi Péturssyni vegna vegalagningar skv Þ-H leið í Gufudalssveit, sem að hluta til liggur um Teigskóg. Málið var fyrst tekið fyrir í fyrra og þá fór fastanefndin fram á frestun framkvæmda og að fram færi mat á áhrifum framkvæmdanna svo unnt væri að leggja mat á kvörtunina.
Á fundinum nú var upplýst að umbeðið mat hefði ekki farið fram og að framkvæmdir væru hafnar að undangengnum uppfylltum öllum ákvæðum laga. Nefndin harmaði þetta og minnti á að alþjóðlegum samningum bæri að fara eftir rétt eins og fyrirmælum laga.
Fram kemur í ályktun fastanefndarinnar að Utanríkisráðuneytið lagði til við fastanefndina að þar sem framkvæmdir væru hafnar yrði kannað á næsta ári hvernig milda mætti áhrif vegalagningarinnar á birkiskóginn. Fastanefndin féllst á tillöguna og hyggst taka málið fyrir að nýju á næsta ári þegar fyrirhuguð athugun hefur farið fram. Er því ekki deilt um það fyrir fastanefndinni hvort vegalagningin fari fram. Það er afgreitt mál.
Í skýrslu Umhverfisráðuneytisins til Fastanefndarinnar er framvinda málsins rakin ítarlega. Skipulagsstofnun hafi staðfest breytingar á aðalskipulagi Reykhólahrepps sem heimila veglínuna, sveitarstjórn hefur gefið út framkvæmdaleyfi, úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamála hafi hafnað kærum vegna framkvæmdanna og að samið hafi verið við alla landeigendur. Þá upplýsir ráðuneytið fastanefndina um að framkvæmdaleyfinu fylgi allmörg skilyrði sem draga eigi úr umhverfisáhrifum og að Vegagerðin hafi fengið Náttúrustofu Vestfjarða til þess að fylgja þeim eftir.
Fréttatilkynning til RUV
Í sameiginlegri yfirlýsingu samtakanna Fuglaverndar, Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands sem send var í gær til Ríkisútvarpsins segir að íslensk stjórnvöld hafi farið gegn alþjóðasamningi um verndun tegunda og búsvæða með vegaframkvæmdum um Teigsskóg og þverun fjarða.
Vegna þessarar fullyrðingar er rétt að benda á að það kemur ekki fram í ályktun fastanefndarinnar að stjórnvöld hafi farið gegn alþjóðasamningnum heldur segir þar orðrétt:
„The Committee expressed its regret that the construction had begun despite repeated calls of the Bureau and Standing Committee to halt development until an OSA could be carried out- it reminded Iceland that there were international treaties to be followed as well as national procedures when carrying out projects such as this.“
Lausleg þýðing:
Fastanefndin harmar að framkvæmdir hafi hafist þrátt fyrir óskir um að mat á áhrifum framkvæmdanna verði unnið- fastanefndin minnir íslensk stjórnvöld á að það ber að fara eftir alþjóðasamningum rétt eins og fyrirmælum laga við framkvæmdir eins og þessar.
-k