Gestur í Vísindaportinu vikunnar föstudaginn 12. nóvember er David Cook, stundakennari við Háskólasetur Vestfjarða. Verður erindi hans á léttari nótunum og eru allir sem áhuga hafa á íþróttum, og þá sér í lagi krikket, hvattir til að að mæta.
Í erindi sínu mun David skoða vöxt krikkets á Íslandi undanfarna áratugi. Sumir sagnfræðingar hafa haldið fram að krikket eigi uppruna sinn í hinum forna íslenska “knattleikr”. Flestir telja þó að íþróttin hafi í raun þróast almennilega hér á landi á 21. öldinni. Í erindinu verður farið yfir þróun þessa furðulega samspils kylfu og bolta, frá leikjum spiluðum á toppi jökla til opnunar norðlægasta krikketvallar heims af forsætisráðherra í Reykjavík árið 2019. Í dag stunda um 100 manns krikket í Reykjavík og mun David fjalla um eigið hlutverk í Krikketsambandi Íslands, sem er ætlað að samhæfa íþróttina á Íslandi auk þeirra fjögurra krikketfélaga sem hafa verið stofnuð.
Erindinu verður streymt á netinu og hefst útsending kl. 12:10.
David er nýdoktor og starfar við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum leggur hann áherslu á sjálfbærni og velferðarhagkerfið. Hann stundar einnig kennslu í umhverfishagfræði við HÍ og er sem áður sagði stundakennari við Háskólasetur Vestfjarða. Í frítíma sínum nýtur David þess að spila krikket og tennis, og að fara í gönguferðir.
Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs og hefst kl. 12:10 og eru allir velkomnir. Erindið fer að þessu sinni fram á ensku.