Varðskipið Týr kom úr sinni síðustu eftirlitsferð fyrir Landhelgisgæslu Íslands í morgun þegar skipið lagðist að bryggju við Faxagarð í Reykjavík. Týr hefur leikið afar stórt hlutverk í sögu Landhelgisgæslunnar undanfarna áratugi.
Varðskipið Freyja hefur því formlega tekið við keflinu af Tý og fer í sína fyrstu eftirlitsferð í byrjun næstu viku.
Týr kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur 24. mars 1975 og lagðist að Ingólfsgarði. Skipið var þá fullkomnasta skip Íslands og jafnframt það dýrasta en það kostaði um einn milljarð króna.
Varðskipið fór sína fyrstu ferð til björgunar- og landhelgisgæslustarfa frá Reykjavík þann 29. mars 1975, undir stjórn Guðmundar Kjærnested , skipherra, og það kom í hlut Eiríks Bragasonar, skipherra, að stýra skipinu í lokaferðinni.