Sektir vegna ferðagjafar stjórnvalda

Persónuvernd hefur lagt stjórnvaldssektir, annars vegar að fjárhæð 7.500.000 kr., á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og hins vegar að fjárhæð 4.000.000 kr. á fyrirtækið YAY ehf., vegna vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við ferðagjöf stjórnvalda. Nánar tiltekið voru sektirnar lagðar á vegna brota gegn grundvallarreglum persónuverndarlöggjafarinnar, til dæmis um fræðsluskyldu, gagnsæi og öryggi persónuupplýsinga í smáforritinu Ferðagjöf.

Upphaf málsins má rekja til útgáfu ferðagjafar stjórnvalda sem hvetja átti landsmenn til ferðalaga innanlands sumarið 2020. Um er að ræða stafræn gjafabréf sem miðlað var til einstaklinga með smáforriti fyrirtækisins YAY ehf. Persónuvernd barst fjöldi ábendinga um að við notkun ferðagjafarinnar væri krafist umfangsmikilla persónuupplýsinga og víðtæks aðgangs að símtækjum notenda og var því frumkvæðisrannsókn sett af stað.

Ráðuneytinu hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að því þyki miður að mistök hafi átt sér stað sem leiddu til þess að aflað var víðtækari persónuupplýsinga en efni stóðu til. Mistökin fólust m.a. í því að smáforrit Ferðagjafar aflaði upplýsinga um aldur og kyn einstaklinga fyrstu þrjá dagana eftir útgáfu smáforritsins. Líkt og fram kemur í ákvörðun Persónuverndar er það mat stofnunarinnar að sú tímaþröng sem verkefnið var unnið í hafi átt stærstan þátt í að umrædd vinnsla hafi farið fram. Um mannleg mistök var að ræða sem þegar í stað var ráðin bót á.

DEILA