Opin bók í Edinborgarhúsinu

Laugardaginn 27. nóvember verður bókmenntavakan Opin bók haldin í Edinborgarsal Edinborgarhússins. Í eðlilegu árferði hafa mætt vel rúmlega 100 manns á upplestrardagskrá Opinnar bókar. Í ár verður miður ekki hægt að taka á móti nema 50 manns, vegna samkomutakmarkana og verða þeir allir að vera skráðir. Til þess að þurfa ekki að vísa neinum frá við dyrnar gefst fólki kostur á að skrá sig fyrirfram með því að senda tölvupóst á netfangið opinbok2021@gmail.com. Í póstinum verða að koma fram nöfn, kennitölur og símanúmer allra þeirra sem ætla að mæta. Svo verður merkt við viðkomandi þegar þau mæta. Auk þessa þarf sjálfsögðu gæta að öllum eðlilegum sóttvörnum – spritt, grímur og fjarlægð. 

Fyrir þá sem vilja frekar fylgjast með viðburðinum heima í stofu verður honum streymt á Facebook síðu Edinborgarhússins

Í ár verða gestir Opinnar bókar þau Ólína Þorvarðardóttir, höfundur skáldsögunnar Ilmreyrs; Fríða Ísberg, höfundur skáldsögunnar Merkingar; Haukur Ingvarsson, höfundur ljóðabókarinnar Menn sem elska menn og fræðiritsins Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu; Sölvi Björn Sigurðarson, höfundur skáldsögunnar Kóperniku; Eiríkur Örn Norðdahl, höfundur Einlægs Andar; Guðlaug Jónsdóttir (Didda), höfundur barna- og endurminningarbókarinnar Í huganum heim; og Auður Jónsdóttir, höfundur skáldsögunnar Allir fuglar fljúga í ljósið. Bækurnar verða til sölu og höfundar munu árita – sprittaðir upp í hársrætur – en ekki verður boðið upp á smákökur eða kaffi í ár vegna sóttvarnasjónarmiða. 

Gestir þurfa að skrá sig fyrirfram. Stefnt er að því að streyma viðburðinum á Facebook.

Viðburðurinn er haldinn með stuðningi frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. 

DEILA