Bætt framsetning reglugerða á netinu

Framsetning á reglugerðum hefur tekið stórstígum framförum með nýjum vef reglugerðasafnsins á island.is/reglugerdir.

Reglugerðir hafa verið aðgengilegar á rafrænu formi um nokkurt skeið en nú hefur verið stigið stærra og veigameira skref sem bætir allt aðgengi að reglugerðum til mikilla muna.

Á vef reglugerðasafnsins er nú ekki aðeins hægt að sjá nýjustu, gildandi útgáfu reglugerðar, þar sem breytingar hafa verið felldar inn í stofnreglugerð og þannig myndað samfellu, heldur er hægt rekja sig aftur í tímann og skoða dagrétta útgáfu sem var í gildi hverju sinni. Þannig er hægt að sjá breytingasögu hverrar reglugerðar fyrir sig.

„Vonast er til að þessi möguleiki spari mikinn tíma og fyrirhöfn og dragi jafnframt úr þeirri réttaróvissu sem skapast þegar fara þarf handvirkt yfir margar breytingareglugerðir til að komast yfir gildandi reglugerð. Þá er leit eftir númerum reglugerða og lykilorðum orðin mun handhægari og fljótvirkari, ásamt því að boðið er upp á ítarleit til að auðvelda enn frekar notkunarmöguleika safnsins,“ segir í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Íslenska reglugerðasafnið hefur fengið nýtt heimili á miðlægri þjónustugátt hins opinbera á island.is/reglugerdir og er aðgangur öllum heimill og gjaldfrjáls.

DEILA