Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs karla segir aðkallandi að bæta aðstöðuna til knattspyrnuiðkunar í Ísafjarðarbæ. Þar leggur hann áherslu á að sett verði gervigras á Olísvöllinn á Torfnesi og telur hægt að ljúka því verki næsta haust.
Samúel segir grasið á vellinum vera lélegt og undirlagið slæmt. Völlurinn þolir illa rigningu. Fyrir vikið verður að nota völlinn sparlega og æfingar geta almennt ekki farið fram á honum. Með gervigrasi myndi verða mikil breyting til batnaðar. Hægt væri að nota Olísvöllinn 9 – 10 mánuði á ári og allir flokkar gætu æft á honum. Kostnaður gæti numið 100 – 120 mkr.
Fjárhagsstaða meistaraflokks er góð segir Samúel. Flokkurinn er nánast skuldlaus og reksturinn er réttu megin við núllið. Reksturinn yfir tímabilið kostar um 65 m.kr. Samúel segir kostnaðinn vera svipaðan og hjá öðrum liðum í Lengjudeildinn að öðru leyti en því að ferðakostnaðurinn er mun meiri hjá Vestra. Í sparnaðarskyni er ferðast með bílum en ekki notast við flug.
Vestri tilkynnti í gær að samningur við Jón Þór Hauksson þjálfara hafi verið framlengdur og verður hann með liðið næsta keppnistímabil. Þá voru einnig framlengdir samningar við leikmenninga Nacho Gil og Nikulas Madsen. Samúel kvaðst telja að liðið næsta tímabil yrði svipað og í ár og myndi hafa styrk til þess að blanda sér í toppbaráttuna í Lengjudeildinni.