Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða vegna verkefna ársins 2022. Veittir verða stofn- og rekstrarstyrkir, verkefnisstyrkir til menningarmála og verkefnisstyrkir til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna. Til úthlutunar eru um 50 milljónir króna, en endanleg upphæð hefur enn ekki verið tilkynnt.
Í úthlutunarreglum segir m.a. um áherslur ársins 2022
Að jafnaði er litið til verkefna sem efla nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu, stuðla að vöruþróun og hönnun, verkefni sem mynda atvinnutækifæri og auka fagmennsku á sviði lista og menningar, verkefni sem styðja við uppbyggingu og eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu og síðast en ekki síst verkefni sem eru gjaldeyrisskapandi.
Við úthlutun til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna verður sérstaklega litið til:
a) Verkefna sem auka hagnýtingu á stafrænni tækni.
b) Verkefna sem stuðla að vöruþróun, nýsköpun eða innleiðingu hönnunar í starfandi fyrirtækjum.
c) Verkefni sem efla vöru- og tækniþróun með áherslu á virði afurða.
d) Verkefni sem hyggjast sækja um í alþjóðlega samkeppnissjóði.
Við úthlutun til menningarverkefna verður sérstaklega litið til:
a) Verkefna sem efla samstarf á milli svæða á Vestfjörðum.
b) Verkefna sem skapa störf innan skapandi greina.
c) Verkefna sem stuðlar að vexti fjölmenningarsamfélagsins á Vestfjörðum.
d) Verkefna sem stuðla að aukinni þátttöku almennings í menningar- og félagsstarfi.
Skilyrði er að verkefnin komi til framkvæmda á Vestfjörðum.
Umsóknarfrestur er til kl. 16:00 fimmtudaginn 4. nóvember 2021.