Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að heimiluð verði opinber kynning á skipulags- og matslýsingu frá Verkís dagsett í september 2021 vegna fyrirhugaðrar landfyllingar og tilfærslu á sjóvörn utan við Fjarðarstræti frá Norðurtanga að Eyrargötu 2-4 (Íshúsfélagið).
Gert er ráð fyrir að meginlandnoktunin verði fyrir íbúðarbyggð, en einnig er gert ráð fyrir rými fyrir minni þjónustu.
Í lýsingu segir að áætluð sé að landfylling verði undir 5 ha að stærð og því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Landfyllingin sjálf er háð framkvæmdaleyfi Ísafjarðarbæjar en ekki er þörf á deiliskipulagi vegna hennar.
Hafnir Ísafjarðarbæjar vinna þessi misserin að lengingu Sundabakka og dýpkun við bakkann. Umtalsvert efni fellur til við dýpkunina og er áformað að nýta hluta dýpkunarefnisins í landfyllingu norðar Eyrar. Þannig er tryggt að efnið nýtist og að ekki þurfi að varpa því í hafið. Gert er ráð fyrir að dýpkunarframkvæmdir fari fram vorið 2022.
Um Skutulsfjarðareyri segir í matslýsingunni:
„Stór hluti Skutulsfjarðareyrar er landfylling sem hefur stækkað jafnt og þétt síðustu áratugi. Landrými á Eyrinni var lítið við upphaf byggðar og því varð byggðin þétt. Fyrsta lögformlega skipulagið á Íslandi náði yfir Skutulsfjarðareyri og frumkvöðlar í byggingarlist settu mark sitt á húsbyggingar. Þetta tvennt leiddi til þess að á Ísafirði varð til sterkur miðbær sem enn í dag heldur sínum sterku sérkennum og yfirbragði. Eyrin geymir þannig menningarsögu svæðisins og hluta af menningarsögu þjóðarinnar.
Miðað við önnur sveitarfélög, eru mörg gömul hús í Ísafjarðarbæ ennþá uppistandandi. Þetta yfirbragð er verndað í aðalskipulagi með hverfisvernd. Kjarni gömlu byggðarinnar er innan við Fjarðarstræti og Sundstræti, þ.e. ekki
aðliggjandi fyrirhugaðri landfyllingu.“