Sighvatur Jón Þórarinsson hefur verið ráðinn garðyrkjufulltrúi Ísafjarðarbæjar og mun hann hefja störf þann 8. nóvember næstkomandi.
Sighvatur stundaði nám við MÍ og lauk þaðan stúdentsprófi ásamt 1. stigi stýrimannaskólans vorið 1982. Síðar lauk hann BS prófi í skógfræði og landgræðslufræðum, frá umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2010.
Sighvatur býr yfir reynslu af uppgræðslu, landgræðslustörfum og skógrækt. Hann hefur séð um plöntulager fyrir Skjólskóga og Skógræktina á vestursvæði Vestfjarða og var umsjónarmaður Skrúðs til sjö ára áður en garðyrkjudeild Ísafjarðarbæjar tók við umhirðu garðsins. Hann hefur unnið við grisjun hjá Skógræktarfélagi Ísfirðinga og stundað landgræðslu, skóg- og skjólbeltarækt á Höfða í Dýrafirði í samstarfi við Landgræðslu ríkisins og Skógræktina.
Sighvatur hefur jafnframt unnið við bústörf og ýmis íhlaupastörf frá unga aldri en samhliða búskap og búrekstri hefur hann m.a. starfað sem verktaki við girðingarvinnu, sem lögreglumaður og kennari.