Minning: Reynir Torfason

Stalín.

Hann bjó  kannski ekki eins víða og sagt var. Trúlega í hugum sumra, annars staðar í nágrenninu en oftast ábyggilega víðs fjarri.

Stjórnmálaátök á Ísafirði voru um margt merkileg. Vissulega mikil á köflum en í rótina var nú oft á tíðum styttra á milli manna en menn vildu vera láta.

Reynir Torfason var úr þeim rótum og umhverfi sprottinn svo hann var ávallt á varðbergi æfina út. Treysti litlu fyrr en margreynt var. Menn urðu að sanna sig fyrir honum. Gilti þar einu hvort hann var verkamaður, sjómaður, útgerðarmaður eða opinber starfsmaður. Öll þau hlutverk sín leysti hann hins vegar vel af hendi.

Ávallt tók hann stöðu með sínu fólki í stjórnmálabaráttunni. Eftir að ég fór að fylgjast með var hann ávallt rétt um eða fyrir neðan miðju á lista þeirra sem næst stóðu sósíalistum hverju sinni.

Við hittumst stundum forðum og áttum stutt spjall saman. Umræðan ekki fínleg en góðleg í grunninn. Segir ekki meira af því.

Þegar sá er var sestur í hafnarsjórn Ísafjarðar lágu leiðir okkar Reynis hafnarvarðar saman. Með varfærni þó. Samtölunum um þessa lífæð bæjarins fjölgaði þó viku frá viku.

Síðla vetrar 1995 komum við hjón uppá efri hæð í því húsi sem lengst af hýsti heimsfrægt hótel mánans á Ísafirði. Var þá tekið að fjölga því fólki er þangað leitaði matar undir nýjum merkjum. Sem við köstuðum mæðinni eftir stigagönguna blöstu við okkur listaverk á hverjum vegg.

Þar voru komin verk listmálarans Reynis. Í umróti þessa vetrar fangaði eitt verk huga okkar beggja. Það var merkt rauðu. Ég lagði það á mig að fara niður í eldhús þessa Mekka matargerðarlistar til þess að fá að hringja í Reyni. Hann sagði sem var að rauða merkið þýddi að verkið væri selt. Nokkrum dögum síðar hringdi hann til baka og sagði verkið falt að nýju og kaup voru umsvifalaust staðfest. Hann spurði fyrir hvern ég væri að kaupa. Þegar ég nefndi mig sjálfan var sem brostið hefði stífla. Hlátur hans var mikill og einlægur. 

Ég trúi að á þeirri stundu höfum við orðið vinir. Þar fundum við streng sem hafði trúlega alltaf verið til staðar og stitlaði aldrei eftir það. Töluðum æ oftar um hafnamál, stjórnmál og daginn og veginn. Ólíkan bakgrunn okkar beggja.

Þegar Reynir í jarðarmyndinni hefur horfið til Gígju eru efstar í huga samúðarkveðjur til allra þeirra nánustu.

Um áratuga skeið hafa verk Reynis blasað við mér og mínum við hvert fótmál og svo mun verða um ókomin ár. Þar má lesa um lífið allt nema eitt.

Stalín.

Halldór Jónsson

DEILA