Lagarlíf: ráðstefna um eldi og ræktun

Fyrirtækið Strandbúnaður ehf á Ísafirði sendur fyrir ráðstefnu í Reykjavík um eldi og ræktun á fimmtudaginn og föstudaginn. Verður þetta fjórða ráðstefnan af þessi tagi. Þær fyrri voru haldnar árin 2017 – 2019 en í fyrra féll ráðstefnuhald niður vegna covid19.

Tilgangur félagsins er að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um strandbúnað og styðja þannig við menntun, rannsóknir,  þróun og stefnumótun greinarinnar. Félagið er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu.

Stjórnarformaður er Halldór Halldórsson fyrrverandi bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og framkvæmdastjóri er Gunnar Þórðarson.

Ráðstefnan skiptist upp í ellefu málstofur þar sem tekin verða fyrir ýmsar hliðar á sjóeldi og landeldi. Verður fjallað um sjókvíaeldi með frjóum lax, þörungarækt og skeldýrarækt. Einnig verður rætt um öryggismál, menntun starfsmanna, leyfisveitingar, stransvæðaskipulag, fóðurgerð og fleira. Flutt verða um 60 erindi á ráðstefnunni.

Meðal ræðumanna verða Kristján Þór Julíusson, sjávarútvegsráðherra, Gunnar Davíðsson deildarstjóri í Fylkisstjórn Trøms og Finnmark í Noregi, Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar, Björn Hembre forstjóri Arnarlax , Ragnar Jónhannsson, sviðstjóri Rannsókna- og ráðgjafastofnun Hafs og Vatna, Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri Vesturbyggð, Ester Anna Ármansdóttir, Skipulagsstofnun  og Sigurður Pétursson, Lax-inn svo nokkrir séu nefndir.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér https://strandbunadur.is/ þar sem hægt er að skrá sig til þátttöku.

Í kynningu á ráðstefnunni segir um fiskeldið og stöðu þess:

„Mikill uppgangur er í íslensku fiskeldi og var útflutningsverðmæti greinarinnar í fyrra yfir 30 milljarðar króna, og um 11,5 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðung þessa árs, eða um 9% af heildarútflutningi landsmanna. Ljóst er að mikill vöxtur er í fiskeldi sem þegar er orðin ein af stoðgreinum útflutnings og má búast við innan fárra ára að greinin skili álíka verðmætum og þorskurinn gerir í dag. En bak við þessa velgengni eru mörg vel borguð störf og umtalsverð afleidd verðmætasköpun. Fiskeldi er mikilvægt fyrir mörg þjónustufyrirtæki sem nú blómstra sem aldrei fyrr. Til viðbótar má bæta því við að fiskeldið hefur byggst upp á stöðum þar sem stöðnun og samdráttur hafði verið um áratuga skeið, og snúið byggðaþróun rækilega við á Vestfjörðum og Austfjörðum. Ræktun í legi er talin lausn framtíðar fyrir matvælabúskap jarðarbúa og mikil tækifæri í áframhaldandi þróun atvinnugreinarinnar.“

Á Lagarlífi verður boðið upp á fyrirlestra um eldi og ræktun, sagt frá því nýjasta sem er að gerast ásamt því að kynna atvinnugreinina út á við. Slík ráðstefna er jafnframt mikilvæg fyrir starfsmenn og stjórnendur að hittast, bera saman bækur sínar og afla sér nýrrar þekkingar. Ráðstefnan er ekki síður mikilvæg fyrir atvinnugreinar sem þjóna eldis- og ræktunargreinum, kynna þjónustu sína, hitta framleiðendur og mynda tengslabönd. Eitt af markmiðum ráðstefnunnar er að hún komist á dagatöl framleiðanda og þjónustuaðila og verði þannig tilefni til að hittast, skiptast á skoðunum og kynna þarfir og lausnir til að auka veg vaxandi útflutningsgreinar.

DEILA