Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík segir að fundur Vestfjarðastofu síðasta þriðjudag á Ísafirði um framtíð fiskeldis á Vestfjörðum hafi verið frábær og þar hafi verið flutt mörg góð og upplýsandi erindi. Af hálfu eldisfyrirtækjanna hefðu kynningarnar verið áhugaverðar og metnaðarfullar um uppbyggingu á Vestfjörðum.
Framsögumenn voru frá Vestfjarðastofu, Atvinnuvegaráðuneytinu, Hafrannsóknarstofnun, stærstu bæjarfélögunum og fiskeldisfyrirtækjunum.
Jón Páll segir að sérstaklega hafi vakið athygli sína erindi Guðrúnar Önnu Finnbogadóttur frá Vestfjarðastofu þar sem hún greindi úthlutun síðuðustu ár á styrktarfé Umhverfissjóðs. Þar kom fram að yfirgnæfandi meirihluti fjárins eða um 80% rann til verkefna á Höfuðborgarsvæðinu og þar fékk Hafrannsóknarstofnun langstærstan hlut.
„Þetta eru sláandi upplýsingar. Það er mikilvægt fyrir Vestfirðinga og sveitarstjórnir að þekking á fiskeldi og umhverfisrannsóknir byggist upp heima í héraði. Í síðustu úthlutun voru 190 m.kr. til skiptanna og það stefnir í að fjárhæðin verði 300 m.kr.. Þessi sjóður er tæki til að tryggja stöðugleika og uppbyggingu í þekkingu á fiskeldi á Vestfjörðum og á Austfjörðum. Það verður að byggja upp samfélagið fyrir vestan en eins og er stefna þessi störf á höfuðborgarsvæðið.“
Jón Páll Hreinsson segir að miðað við það sem fram kom í máli forstjóra Arctic Fish Farm og Arnarlax um það hver mikilvægt væri fyrir fiskeldið að flutningur á eldisfiski að og frá sláturhúsi yrði ekki til þess að auka um of áhættuna á smiti milli eldissvæða (biohazard) teldi hann að skynsamlegt væri að það yrðu tvö sláturhús á Vestfjörðum.