Gestur í Vísindaporti vikunnar er Harpa Lind Kristjánsdóttir og byggir erindið á niðurstöðum meistaraverkefnis hennar í heilbrigðisvísindum.
Undanfarin ár hafa komið fram sannfærandi gögn um að dvöl og iðja í náttúrunni sé gagnleg heilsu og vellíðan og að náttúrutengd endurhæfing (NTE) skili góðum árangri í starfsendurhæfingu, ekki síst þegar um er að ræða einstaklinga sem þjást af þunglyndi, kvíða, streitutengdum vanda og áfallastreitu.
Hér á Íslandi hefur NTE ekki verið mikið stunduð, þrátt fyrir nær óheft aðgengi að óspilltri náttúru. Í erindinu mun Harpa Lind kynna rannsókn sína sem hafði þann tilgang að vera fyrsta skrefið í að þróa gagnreynt náttúrutengt endurhæfingarúrræði til að innleiða í starfsemi starfsendurhæfingarstöðvar (SES).
Erindinu verður streymt á netinu og hefst útsending kl. 12:10.
Harpa Lind Kristjánsdóttir er iðjuþjálfi og forstöðumaður Starfsendurhæfingar Vestfjarða. Rannsóknin er meistaraverkefni Hörpu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri sem hún lauk árið 2020.
Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs og hefst kl. 12:10. Allir velkomnir.