Fjórðungsþing Vestfirðinga sem haldið var um síðustu helgi vill að vegagerð yfir Veiðileysuháls verði flýtt frá því sem gert er ráð fyrir í núverandi samgönguáætlun og verkefninu lokið í síðasta lagi á árinu 2023. „Afar mikilvægt að lokið verði við allan undirbúning verksins á árunum 2021 og 2022. Eins er tekið undir að í næstu samgönguáætlun verði sett á áætlun verkefni sem tryggi bættar heilsárssamgöngur alla leið í Norðurfjörð“ segir í ályktuninni.
Fjórðungsþingið vill nýta þá stöðu að umhverfismati framkvæmda á Veiðileysuhálsi er nær lokið og hönnun vegstæðis er hafin. „Ef fjármagn verður eyrnamerkt framkvæmdinni á þessu ári þá má ætla að bjóða megi verkefnið út í upphafi árs 2022. Með þessum hætti eru stjórnvöld að staðfesta vilja sinn og trú á framtíð samfélagsins í Árneshreppi og fylgja þar með eftir þingsályktun Alþingis um verndun búsetu og menningar í Árneshreppi og stefnumörkun verkefnisins Áfram Árneshreppur.“
Innstrandavegur
Fjórðungsþing Vestfirðinga ályktaði einnig um vegarkafla í Steingrímsfirðinum sem enn er óframgenginn og harmar þingið að endurnýjun vegkaflans, svonefndur Innstrandavegurr milli Heydalsár og Þorpa, hafi ekki verið flýtt og hann unnin sem hluti af fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Samkvæmt Samgönguáætlun 2020-2034 á að vinna að verkefninu á tímabilinu 2025-2029, en um er að ræða endurnýjun og setja bundið slitlag á 5 km malarveg og ná þá loks samhangandi vegi með slitlagi frá Hólmavík í botn Kollafjarðar, framkvæmdakostnaður er áætlaður 300 mkr.
Fjórðungsþing Vestfirðinga krefst þess að endurnýjun Innstrandavegar frá Kollafirði að Guðlaugsvík verði settur á samgönguáætlun.