Fjórðungsþing Vestfirðinga vill fá gamla Herjólf í stað Baldurs

Í álykt­un­um þings Fjórðungs­sam­bands Vest­fjarða sem haldið var um helg­ina segir að Baldur anni ekki
eftirspurn miðað við núverandi siglingaráætlun og það sem er enn mikilvægara að ekki náist að tryggja öryggi farþega um borð. Því sé nauðsynlegt að endurnýja núverandi ferju.

Það er skýr krafa Fjórðungsþingsins að ekki verður unað við þá niðurstöðu Vegagerðarinnar að hagstæðast sé að uppfylla núverandi samning við Sæferðir sem gildir til 31. maí 2022 með möguleika á framlengingu til 31.maí 2023.

Það er skýr krafa sveitarfélaga á Vestfjörðum að hafin verði strax undirbúningur að því að gera gamla Herjólfi kleift að leggjast að bryggju á Brjánslæk og í Flatey og að hann hefji siglingar við fyrsta tækifæri og sigli þar til ný ferja getur hafið siglingar.

Einnig að við endurbyggingu á ekjubrúm sé miðað við að þær bæði henti Herjólfi og nýrri ferju.

Fjórðungsþing leggur einnig ríka áherslu á að lokið verði við gerð viðbragðsáætlunar vegna ferjuslysa á Breiðafirði, sem lagt var til árið 2011 að yrði unnin, en tíðar bilanir og aldur skipsins eru mikið áhyggjuefni er varðar öryggi farþega.

DEILA