Fiskeldissjóður veitir styrk til endurnýjunar vatnslagnar í Staðardal

Ísafjarðarbær hefur hlotið 20 milljón króna styrk úr fiskeldissjóði til endurnýjunar vatnslagnar í Staðardal.

Núverandi afköst lagnarinnar takmarka uppbyggingu iðnaðar á Suðureyri og því á endurnýjunin að tryggja að rými sé fyrir frekari vexti iðnaðar á Suðureyri auk þess að Suðureyrarhöfn geti tryggt betra aðgengi að vatni.

Fiskeldissjóður er nýr sjóður sem er ætlað að veita sveitarfélögum styrki til uppbyggingar innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað, og styrkja þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum. Alls bárust 14 umsóknir í sjóðinn og var ákveðið að veita fimm styrki upp á alls 105 m.kr.

Við úthlutun styrkja úr sjóðnum 2021 var sérstaklega horft til verkefna sem snúa að:

  • Styrkari samfélagsgerð, (menntun, menning, íbúaþróun)
  • Uppbyggingu innviða, (atvinnulíf, þjónusta)
  • Loftslagsmarkmið og umhverfisvernd (fráveita, orkuskipti, vatnsveita)
  • Tenging við sjókvíaeldi (hafnir, aðstaða í landi)
  • Nýsköpun hverskyns tengd ofangreindum þáttum

DEILA