Fiskeldissjóður: aðeins þriðjungur til Vestfjarða

Lokið er fyrstu úthlutun styrkja úr Fiskeldissjóði, sem er á forræði Atvinnuvegaráðuneytisins. Úthlutað var 105 milljónum króna til 5 verkefna. Sótt var um 14 styrki frá 7 sveitarfélögum að fjárhæð 239,8 milljónir króna.

Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnumfengu eftirtalin fimm verkefni styrk:

  • Leikskóli í Fjarðarbyggð (Eskifirði) samtals að fjárhæð 42.589.578 
  • Vatnsveita í Ísafjarðarbæ (Súgandafirði) samtals að fjárhæð 20.439.408 
  • Fráveita í Múlaþingi (Djúpavogi) samtals að fjárhæð 28.064.925 
  • Fjarlægja vatnslögn úr asbesti í Vesturbyggð (Bíldudal) samtals að fjárhæð 6.929.723 
  • Vatnsöryggi í Vesturbyggð (Patreksfirði) samtals að fjárhæð 6.982.366.  

Þrjú verkefnanna eru á Vestfjörðum og er styrkurinn samtals að fjárhæð 34 milljónir króna. Tvö verkefnanna eru á Austfjörðum og fengu þau tæplega 71 milljóna króna styrk.

Innborganir í sjóðinn miðað við framleiðslu 2020 er um 2/3 frá vestfirskum eldisfyrirtækjum og um 1/3 frá austfirskum.

Meðal styrkumsókna sem fengu synjun var umsókn frá Bolungavík til uppbyggingar á hafnarsvæði í Bolungavík.

Lögum samkvæmt eru styrkir sjóðsins ætlaðir sveitarfélögum til verkefna sem eru til þess fallin að byggja upp
innviði og þjónustu á þeim svæðum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað. Það er því á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Fiskeldisfyrirtækin greiða í sjóðinn ákveðna fjárhæð á hvert kg af slátruðum laxi sem alinn er í sjókvíum. Tekur það mið af alþjóðlegu markaðsverði á Atlantshafslaxi og er 3,5% þegar verðið er 4,8 evrur/kg eða meira og lægra ef markaðsverðið er undir þeim mörkum.

Fjárhæðin sem sjóðurinn hefur árlega úr að spila mun hækka verulega á næstu árum með auknu sjókvíaeldi.

Þriggja manna stjórn er yfir sjóðnum. Formaður er Haraldur Líndal Haraldsson. Auk hans er Álfheiður Ingadóttir í stjórninni og þriðji stjórnarmaðurinn er embættismaður í atvinnuvegaráðuneytinu.

 

DEILA