Eiríkur Örn: Einlægur önd

Út er komin ný skáldsaga eftir Ísfirðinginn Eirík Örn Norðdal. Útgefandi er Forlagið. Eiríkur Örn hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir bækur sínar, hér heima og erlendis, sem jafnan eru nýstárlegar og ögrandi segir í fréttatilkynningu frá Forlaginu.

„Í Einlægur Önd leikur hann sér á mörkum skáldskapar og veruleika í umfjöllun um útskúfun, refsingu og fyrirgefningu.

Þegar Eiríkur Örn, aðalpersóna þessarar skáldsögu, tekur að sér kennsluverkefni í ritlist fyrir erlent stórfyrirtæki er því mótmælt með nafnlausri hótun. Hann hefur enda brennt allar brýr að baki sér með skrifum sínum og framkomu. Til að flýja veruleikann sökkvir hann sér í vinnu, söguna af Felix Ibaka frá tilbúna landinu Arbítreu, þar sem fólk refsar hvert öðru með múrsteinaburði.“

Eiríkur Örn hefur hlotið viðurkenningu Ljóðstafs Jóns úr Vör, Íslensku þýðingarverðlaunin og Menningarverðlaun DV í bókmenntum fyrir ljóðabókina Óratorrek. Fyrir Illsku hlaut hann meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin og Prix Transfuge í Frakklandi, og var jafnframt tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Franska þýðingin á Heimsku hlaut einnig Transfuge-verðlaunin sem besta norræna skáldsagan á frönsku árið sem hún kom þar út.

DEILA