Bæjarráð Vesturbyggðar hefur sam.ykkt að sækja um styrki til framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til sex tilgreindra verkefna í sveitarfélaginu.
Um er að ræða eftirfarandi verkefni:
Sundlaugin Krossholtum / Laugarnesi. Sótt verður um styrk fyrir byggingu á aðstöðu fyrir sundlaugargesti.
Kolabryggja Patreksfirði. Sótt verður um styrk fyrir hönnun á skemmtibryggju á svipuðum slóðum og gamla kolabryggjan stóð ásamt því að skapa aðstöðu fyrir sjótengda útivist.
Bryggjuhverfi á Bíldudal. Sótt er um styrk fyrir frumhönnun og skipulagi við bæjarmynd Bíldudals við Hafnarbraut ásamt því að greina þau tækifæri og þá starfsemi sem unnt er að byggja upp á svæði við hlið Bíldudalshafnar. Gert er ráð fyrir að til verði einstök götumynd gamalla húsa og hafnarsvæði sem muni auka afþreyingu og þjónustu. Hluti verkefnisins felst einnig í því að frumhanna og tengja við hið nýja svæði sundlaug og sjósundaðstöðu.
Merkingar á höfninni á Patreksfirði. Sótt verður um styrk fyrir hönnun, gerð og uppsetningu upplýsingarskilta á höfninni á Patreksfirði. Skiltin munu þannig leiðbeina gestum skemmtiferðaskipa um svæðið og þannig auka jákvæða upplifun þeirra af svæðinu ásamt því að tryggja öryggi varðandi vinnusvæðið sem höfnin er.
Uppbygging húss Gísla á Uppsölum í Selárdal. Sótt er um styrk fyrir uppbyggingu á Uppsölum til að fólk geti heimsótt bæinn.
Garðar BA. Sótt er um styrk til gerðar á deiliskipulagi varðandi svæðið í kringum Garðar BA sem stendur í Skápadal, Patreksfirði.