Ég vil þakka kjósendum Norðvesturkjördæmis það mikla traust sem mér og Flokki fólksins var sýnt í alþingiskosningunum síðastliðinn laugardag. Ég þakka árangurinn því að kjósendur í kjördæminu hafa trú okkur og þeim stefnumálum sem flokkurinn berst fyrir. Einnig því hugarfari og nálgun sem Flokkur fólksins stendur fyrir þegar kemur að viðfangsefnum samfélagsins.
Það að allir á Íslandi fái lifað mannsæmandi lífi og að virk þátttaka í samfélaginu og lífsgæði sé fyrir alla er lífsviðhorf sem mikilvægt er að halda á lofti í samfélaginu. Í kosningabaráttunni fann Flokkur fólksins fyrir mikilli samstöðu og fékk öflugan lýðræðislegan stuðning sem hann kallaði eftir til að gera okkur mögulegt að útrýma óréttlæti, mismunun og fátækt. Framhaldið ræðst af samstarfi annarra flokka.
Við fundum fyrir mikilli samstöðu í kjördæminu fyrir því að krafan um jöfnun búsetuskilyrða í landinu verði sett á oddinn í stjórnmálum. Nauðsynlegir innviðir á borð við nútímasamgöngur og öflugt fjarskiptasamband, ásamt góðri heilbrigðisþjónustu og menntun, sem stenst samanburð við höfuðborgarsvæðið, er réttmæt krafa íbúa landsbyggðarinnar.
Fjölbreytt atvinnulíf er styrkasta stoð allrar byggðar. Öflugar strandveiðar með frjálsum handfæraveiðum eru ein slík stoð og eiga sér langa sögu líkt og hefðbundinn landbúnaður. Krafan um að íbúar sjávarbyggða njóti aukins réttar til að nýta sjávarauðlindina með jákvæðum áhrifum á sjávarplássin víðs vegar um land er réttmæt krafa sem auðvelt er að ná sátt um sé vilji fyrir hendi.
Byggð í blóma er grundvöllur öflugrar ferðaþjónustu. Mikilvægt er að auka aðgengi ferðmanna að Vesturlandi og áfram til Vestfjarða og Norðurlands vestra með bættum vegsamgöngum. Þar er Sundabraut mikilvægust, auk betri vegtenginga innan kjördæmisins og til Þingvalla og Suðurlands um Uxahryggi, sem og Breiðafjarðarferja sem stenst nútímakröfu.
Sundabraut er án vafa þjóðhagslega hagkvæmasta vegaframkvæmdin sem völ er á í dag og skiptir miklu fyrir Norðausturkjördæmi og allt Norðurland. Ekki síst fyrir Akranes og myndi styrkja stöðu bæjarins sem hluta af atvinnusvæði höfuðborgarinnar og er eðlilegt framhald Hvalfjarðarganga. Sundabraut er framkvæmd sem allir þingmenn Norðvesturkjördæmis ættu að sameinast um, ásamt þingmönnum Norðausturkjördæmis, enda mikilvægt hagsmunamál fyrir landsbyggðina og landið allt.
Við í Flokki fólksins lítum með bjartsýni til næsta kjörtímabils og þeirra verkefna sem bíða okkar í að bæta íslenskt samfélag. Eitt af þeim verkefnum er að gæta hagsmuna Norðvesturkjördæmis og stuðla að því að byggð og atvinnulíf kjördæminu eflist. Tækifærin þar eru ótrúlega mörg.
Ég er þakklátur kjósendum kjördæmisins fyrir þá góðu kosningu sem Flokkur fólksins fékk á kjördag og mun vinna að málefnum kjördæmisins eftir fremsta megni. Ég þakka traustið.
Eyjólfur Ármannsson
__________________________________________________
Höfundur var kjördæmakjörinn í 6. sæti í alþingiskosningunum 25. september sl.