Minjastofnun hefur hafið undirbúning að friðlýsingu garðsins Skrúður í Dýrafirði. Húsafriðunarnefnd styður friðlýsingartillöguna. Hyggst Minjastofnun leggja tillögu um friðlýsinguna fyrir mennta- og menningarmálaráðherra sem tekur ákvörðun í málinu.
Lagt er til að friðlýsingin nái til garðsins Skrúðs í heild samkvæmt upphaflegu skipulagi auk vegghleðslna umhverfis garðinn og innan marka hans, garðshiðs úr hvalbeini, gosbrunns og gróðurhúss og annarra sögulegra minja.
Drög að friðlýsingarskilmálum hafa verið samin og hafa verið lögð fyrir landeigendur, húseigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Skila skal athugasemdum fyrir 15. október n.k.
Vinna við garðinn hófst 1905 og fyrstu trén voru gróðursett 1908. Í rökstuðningi Minjastofnunar fyrir friðlýsingunni segir að garðurinn hafi verið hugarsmíð séra Sigtryggs Guðlaugssonar og sé einstakt afrek.
Formföst uppbygging garðsins beri einkenni klassískra garða í Evrópu frá 16. og 17. öld. Garðurinn er nú í umsjón og eigu Ísafjarðarbæjar.