Olísvöllurinn: ný skorklukka kostar 5 m.kr.

Frá leik Vestra við fram í sumar. Klukkan sést vel á myndinni. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Knattspyrnudeild Vestra hefur óskað eftir því við ísafjarðarbæ að keypt verði ný skorklukka á knattspyrnuvöllinn á Torfnesi. Samkvæmt upplýsingum frá HSV og knattspyrnudeild Vestra er áætlaður kostnaður nýrrar
skorklukku um kr.5.000.000.

í erindi Vestra segir að viðhaldi og uppbygging á svæðinu hafi undanfarin ár verið ábótavant.

„Þann 15.september s.l. fékk Vestri stórlið Vals í heimsókn á Olísvöllinn. Skemmst er frá því að segja að leikurinn fór
2-1 fyrir heimamönnum. Uppselt var á leikinn og mikil stemming í kringum hann. Það sem skyggði þó aðeins á alla gleðina og fagmennskuna á bakvið leikinn og alla vinnu sjálfboðaliða var vallarklukkan okkar. Hún hefur svo sannarlega sinnt okkar þörfum síðustu ár, en fyrir nokkru síðan fór hún að bila og er hún núna ónýt. Á stórleiknum í fyrradag var slökkt á henni þar sem að hvorki tími né markafjöldi helst á henni. Klukkan hefur ekki virkað síðustu mánuði
eða jafnvel ár og er kominn tími til að skipta henni út.“

Félagið hefur síðustu mánuði reynt án árangurs að finna lausn á þessu klukkumáli og snýr sér því til bæjarins með ´ósk um að vallarklukka á Olísvöllinn á Torfnesi komi inn á fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

Bæjarráðið þakkaði erindið og bókar að það verði skoðað með jákvæðum hug við fjárhagsáætlunargerð ársins 2022. Jafnframt fól bæjarráð sviðsstjóra að fá verðtilboð í stigatöflu í samráði við Knattspyrnudeild Vestra.

DEILA