Matvælasjóður: 50 m.kr. styrkir til Vestfjarða

Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi ráðherra.

Matvælasjóður hefur birt úthlutun þessa árs. Veittir voru 64 styrkir samtals að fjárhæð 566,6 m.kr. Til Vestfjarða fóru styrkir að upphæð 50 m.kr.

Þar ber hæst 25,5 m.kr. styrkur til True Westfjords ehf í Bolungavík til verkefnisins hrein fiskiolía í vesturvíking og 17.425.000 kr styrk til Örnu ehf vegna verkefnisins hafraskyr úr íslenskum höfrum. Hafgustur ehf á Hólmavík fékk 3 m.kr. styrk til að þróa grjótkrabba sem vöru á neytendamarkaði.

Loks má geta styrks til Þörungaklausturs ehf á Reykhólum að fjárhæð 2.974.400 kr til ð gera tilraun til að nota þangsafa við vökvaræktun grænmetis.

Fjögur fagráð voru stjórn sjóðsins til ráðgjafar, eitt í hverjum styrkjaflokki, og skiluðu þau til stjórnar forgangsröðun verkefna eftir einkunnum ásamt umsögnum um hvert verkefni fyrir sig. Stjórn Matvælasjóðs skilaði tillögum til ráðherra hinn 3. september sl. og hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fallist á þær. 

Í stjórn Matvæasjóðs sitja:

  • Margrét Hólm Valsdóttir, formaður, án tilnefningar,
  • Karl Frímannsson, án tilnefningar,
  • Heiðrún Lind Marteinsdóttir, samkvæmt tilnefningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi,
  • Gunnar Þorgeirsson, samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Það er gríðarlegur kraftur og gróska í íslenskri matvælaframleiðslu vítt og breytt um landið. Þær umsóknir sem sjóðnum bárust í ár eru skýr vitnisburður um það. Það var ein af lykiláherslum mínum við stofnun sjóðsins að hann myndi styrkja verkefni um allt land og að stuðningur við matvælaframleiðslu verði sem næst uppruna hennar. Sú jafna dreifing styrkja milli landshluta sem birtist við þessa úthlutun er því sérstaklega ánægjuleg. Styrkir Matvælasjóðs eru um leið skýr skilaboð; stjórnvöld eru að fjárfesta í framtíðinni. Fjárfesta í aukinni verðmætasköpun.”

DEILA