Launamunur karla og kvenna dregst saman

Launamunur karla og kvenna hefur dregist saman síðustu ár og á það jafnt við um atvinnutekjur og óleiðréttan og leiðréttan launamun.

Kynbundin skipting vinnumarkaðarins í störf og atvinnugreinar skýrir að miklu leyti þann launamun sem enn er til staðar en áhrif menntunarstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun hafa minnkað, einkum seinni árin.

Konur voru að jafnaði með 4,3% lægri laun en karlar árið 2019 í stað 6,2% árið 2010 sé tekið mið af leiðréttum launamun.

Óleiðréttur launamunur var 17,5% árið 2010 en 13,9% árið 2019. Ef horft er til atvinnutekna, þar sem ekki er tekið tillit til áhrifaþátta sem geta skýrt misháar tekjur svo sem vinnutíma og starfs, voru konur að jafnaði með 32,9% lægri atvinnutekjur en karlar árið 2010 en 25,5% árið 2019.

Árið 2020 hafði munurinn dregist enn meira saman en rétt er að setja fyrirvara við niðurstöður ársins 2020 vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins á íslenskan vinnumarkað. Árið 2020 var leiðréttur launamunur 4,1% og óleiðréttur launamunur að jafnaði 12,6% en munur á atvinnutekjum karla og kvenna var 23,5%.

DEILA