Föstudaginn 10. september, kl. 13:30, mun Aidan Conrad verja meistaraprófsritgerð sína í sjávarbyggðafræði við Háskólasetur Vestfjarða.
Gestir eru beðnir um að huga sérstaklega að persónubundnum sóttvörnum og að fara eftir nánari leiðbeiningum í Háskólasetrinu. Vörnin verður einnig aðgengileg á Zoom.
Smábátaveiðar eru mikilvægur hluti af efnahagi, samfélagi og matvælakerfi sjávarbyggða. Þar að auki hafa smábátaveiðar í mörgum tilvikum minni umhverfisáhrif vegna staðbundinnar vistfræðilegrar þekkingar, veiðarfæra og minni eldsneytisnotkunar. Þrátt fyrir þetta mikilvægi smábátaveiða sem grundvallaratriði í sjávarbyggðum hefur smábátaútgerð farið stöðugt hnignandi undanfarin ár. Þessi hnignum hefur verið rakin til fjölmargra þátta, þ.á m. ofveiði, niðurbrots vistkerfa, samkeppni við hefðbundinn sjávarútveg og óhagstæða stefnu í stjórnun fiskveiða. Við Eystrasaltið í Evrópu er þessi hnignun sérstaklega áberandi.
Í þessari rannsókn er sjónum beint að hnignun smábátaveiða við sænsku strandlengjuna í Eystrasalti og leitast við að kanna hvernig svæðisskipt stjórnun geti stutt við staðbundnar smábátaveiðar í Svíþjóð. Í þessu skyni var stuðst við samanburðaraðferðir þar sem notast var við þemu úr árangursríkri svæðisskiptingu smábátaveiða á Labrador í Kanada og lærdómar dregnir af þessu sem má yfirfæra á stjórnun fiskveiða í Svíþjóð. Þessi tvö dæmi um smábátaveiðar, á Labrador og í Svíþjóð, voru borin saman og greind með tvö hugtök að leiðarljósi, annarsvegar hugtak sem snýr að þátttöku hagsmunaaðila í fiskveiðistjórnun (e. Adaptive Co-Management) og hinsvegar hugtak sem snýr að réttindum þeirra sem búa næst auðlindinni (e. Principle of Adjacency). Notkun þessara tveggja hugtaka skipti höfuðmáli enda snúast þau bæði um staðbundna auðlindastjórnun. Með því að hagnýta hugtökin tvö var hægt að greina almenna þætti í báðum dæmunum sem síðan voru borin saman til að setja fram atriði til að taka mið af í því augnarmiði að þróa sjálfbærar og staðbundnar fiskveiðar við Eystrasaltsströnd Svíþjóðar.
Niðurstöður þessarar samanburðarrannsóknar leiddu í ljós að með því að nýta aðferðir frá Labrador eru til staðar talsverðir möguleikar í Svíþjóð sem hefðu í för með sér ávinning og aukningar staðbundinnar fiskveiðistjórnunar. Í rannsókninni eru að lokum settar fram mögulegar leiðir til að innleiða þetta, ásamt atriðum til að hafa í huga með frekari þróun sjálfbærra fiskveiða í Eystrasalti sem myndi þjóna bæði sjávarbyggðunum og vistkerfinu.