Ísafjörður: 13 á biðlista eftir hjúkrunarrými

Dagdeild aldraða er 38% undir áætlun í launakostnaði.

Þrettán eru á biðlista eftir hjúkrunarrými á Eyri á Ísafirði. Nokkrar umsóknir bíða afgreiðslu færni- og heilsumatsnefndar. Vakin er athygli á að tvímennt er í þremur herbergjum á Eyri, einu á hverri deild.

þetta kemur fram í svörum bæjarstjóra við fyrirspurn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarfulltrúa Í listans.

Þá var einnig spurt hversu margir einstaklingar eru á biðlista eftir íbúð á Hlíf 1. Alls eru það 27 einstaklingar sem bíða eftir íbúð á Hlíf 1, þrenn hjón og 21 einstaklingur. Íbúðir í eigu Ísafjarðarbæjar á Hlíf I eru 26.

Einn einstaklingur er á biðlista eftir íbúð á Tjörn á Þingeyri.

Þörf einstaklinganna 27 er mjög mismunandi, allt frá því að ekki liggi á íbúð upp í mjög brýna þörf.

Arna Lára spurði einnig um hvort hefði verið unnið að mótun aðgerða til að koma til móts húsnæðisþörf aldraðra í
sveitarfélaginu. Í svari bæjarstjóra, sem sviðsstjóri velferðarsviðs tók saman segir að fjallað hafi verið um húsnæðisþarfir aldraðra í sveitarfélaginu á fundum velferðarnefndar, öldungaráðs og á umhverfis- og eignasviði.

Þá segir:
„Þjónustuskipulagi á Hlíf hefur verið breytt þannig að fjórða hæðin á Hlíf I er skipulögð fyrir þrjár nýjar íbúðir, tvær minni en eina stóra (c.a. 100 fm). Það stendur til að auglýsa þær til sölu síðar í haust.
Þá eru bæjaryfirvöld meðvituð um óskir aldraðra um húsnæði sem myndi henta þörfum þeirra s.s. 80-100 fm íbúðir. Rætt hefur verið við verktaka um þetta en ekkert hefur komið fram um byggingaráætlanir þeirra.“

DEILA