Háskólasetur með kennslu í Edinborgarhúsinu í haust

Háskólasetur Vestfjarða hefur samið við Edinborgarhúsið um að kennsla í námsleiðunum Sjávarbyggðafræði og Haf- og strandsvæðastjórnun fari fram í Edinborgarsal í haust.

Þetta er gert til að bregðast við fjölgun nemenda í námsleiðunum tveimur en samtals hófu 43 nemendur nám á fyrsta ári nú í haust. Samkennd námskeið og vinsæl valnámskeið rúmast því tæpast í kennslustofum Háskólasetursins.

Á fyrstu árum Háskólasetursins, áður en meistaranámið var orðið að veruleika, var rætt um að innrétta stóran fyrirlestrasal fyrir Háskólasetrið og voru jafnvel teiknaðar upp metnaðarfullar tillögur að stórri háskólabyggingu.

Stefna Háskólaseturs hefur þó ávallt verið sú að fá nemendur fyrst á staðinn áður en farið er í miklar skuldbindingar og fjárfestingar. Sú stefna hefur almennt séð gefist vel.

Með tilkomu nýrrar námsleiðar er hinsvegar svo komið að Háskólasetrið þarf á stórum fyrirlestrasal að halda. Það kemur sér því vel að ekki þarf að byggja þennan sal heldur einungis semja við Edinborgarhúsið sem er steinsnar frá Háskólasetrinu með fullbúinn sal til kennslu.

DEILA