Fjórir aðilar komnir í úrslit Bláskeljarinnar

Bambahús, Hemp Pack, Pure North Recycling og Te & Kaffi hafa verið valin í úrslitahóp Bláskeljarinnar 2021. 

Bláskelin eru nýsköpunarverðlaun Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og eru veitt fyrir framúrskarandi lausn í plastmálefnum. 17 aðilar voru tilnefndir til verðlaunnanna í ár og fjórir þeirra hafa verið valdir í úrslitahóp.  

Bambahús eru gróðurhús sem búin eru til úr 1.000 lítra vökvatönkum úr plasti sem umvafðir eru járngrind. Tankarnir kallast bambar.

Bambarnir eru venjulega einnota, en í gegnum Bambahús er þessum tönkum gefið nýtt líf. Járngrindin utan um tankana er tekin í sundur og vökvatankarnir eru endurnýttir sem innvols í gróðurhúsið. Úr þessu verða létt og færanleg gróðurhús sem er hægt að setja hvar sem er þar sem er slétt undirlag. Eina aðkeypta efnið í gróðurhúsin eru klæðning, hurð og skrúfur.

Bambahús eru ekki aðeins gott dæmi um umhverfisvæna nýtingu á plasti, heldur er umhverfishugsunin höfð að leiðarljósi innan veggja Bambahúsanna líka. Á aðeins einu ári hafa Bambahúsin komist í notkun í fimm leikskólum og sex grunnskólum. Þar nýtast gróðurhúsin sem tæki fyrir kennara til að fræða börn um matvælaframleiðslu og matarsóun.

Hemp Pack er ungt íslenskt líftæknifyrirtæki. HempPack stefnir að því að framleiða niðurbrjótanlegt lífplast úr næringarríkum úrgangi sem fellur til við m.a. landbúnað og matvælaframleiðslu. 

Úrgangurinn er nýttur til að framleiða svokallað PHA plast, en framleiðslan sjálf er í “höndum” örvera, sem nýta úrganginn sem orkugjafa. Í PHA framleiðsluna eru ekki sett nein íblöndunarefni, en sum íblöndunarefni í plasti geta haft hormónaraskandi áhrif á bæði fólk og flóru. PHA efnið er meira segja svo hættulaus að óhætt er að leggja það sér til munns. 

Ólíkt algengum lífplastefnum eins og PLA sem brotna einungis niður í iðnaðarmoltugerð þá brotnar PHA plast niður í lífræn efni í náttúrunni og heimajarðgerð. PHA plast getur því orðið umhverfisvænni staðgengill hins hefðbundna plasts.

Pure North Recycling sérhæfir sig í endurvinnslu á plastúrgangi og plastefnum sem falla til í íslensku samfélagi. Pure North tekur á móti mörgum tegundum plastefna til endurvinnslu og er eina fyrirtækið sem endurvinnur plast á Íslandi.

Nýsköpunargildi Pure North Recycling felst fyrst og fremst í því að nota nýstárlega aðferð til að knýja endurvinnsluferlið. Pure North nýtir jarðgufu í Hveragerði bæði við þvott og þurrk á plastinu sem verið er að endurvinna. Þessi aðferð er umtalsvert umhverfisvænni en sambærileg ferli í Evrópu. Samkvæmt vistferilsgreiningu er kolefnisspor endurvinnslunnar 75% lægra á hvert unnið tonn en meðallosun í evrópskum plastendurvinnslum. Við vitum ekki til þess að nokkuð annað fyrirtæki í heiminum nýti sér jarðvarma til endurvinnslu á plasti, og því mætti segja að Pure North framleiði eitthvert umhverfisvænasta plast í heiminum í dag.

Allt kaffi frá Te & Kaffi á neytendavörumarkaði er nú niðurbrjótanlegum umbúðum unnum úr plöntusterkju og trefjum. Efsta lag umbúðanna er úr pappír, miðjuefnið er úr cellolan og innsta lagið er úr PLA lífplasti. Umbúðirnar er hægt að flokka sem lífrænt rusl, en má einnig fara í almennt rusl ef lífræn flokkun stendur ekki til boða. 

Nýju umbúðirnar eru fimm sinnum dýrara en þær umbúðir sem Te & Kaffi voru að nota áður. Þann kostnað hefur fyrirtækið tekið á sig og telja það hluta af sinni samfélagsábyrgð að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni. 

Te & Kaffi notaði um 17 tonn af plasti á ári í gömlu umbúðirnar. 

Te & Kaffi hefur einnig unnið að því að draga úr plastnotkun á kaffihúsunum sínum með margvíslegum hætti. 

Bláskelin verður afhent á málþingi Plastlauss septembers þann 16. september klukkan 17:00 í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar. Hægt verður að fylgjast með streymi frá viðburðinum

DEILA