Umræða um loftslagsmál

Það er erfitt að festa hönd á stefnu þeirra sem mest hafa sig í frammi í umhverfis-og loftslagsmálum á Íslandi. Bæði fer hljóð og mynd ekki saman og eins mætti ætla að Íslendingar einir og sér séu í stöðu til stöðva útblástur gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum í öllum heiminum.

Í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 8. ágúst s.l. voru mætt í settið hjá Kristjáni stjórnanda  núverandi og fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar; Auður Magnúsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ásamt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til að ræða loftslagsmál og ábyrgð Íslendinga á ástandi heimsins. Eins og Sigmundur Davíð benti á eru Íslendingar í einstakri stöðu þegar kemur að útblæstri CO2, framleiða mesta raforku á mann í heiminum sem er öll umhverfisvæn og hita upp meginpart húsnæðis með endurnýjanlegum orkugjöfum. Hann sagði  þetta mikilvægasta framlag þjóðarinnar til loftslagsmála heimsins, sem er hnattrænt, þar sem eitt álver á Íslandi losar rétt rúmlega 10% af gróðurhúsalofttegundum álvers staðsett í Kína, en þar hefur vöxtur álframleiðslu verið mestur undanfarna áratugi.

Þessu hafna Landverndarmenn algjörlega og segja að engin sönnun sé til á þessari staðhæfingu. Þó það blasi við að álver í Kína nota kol sem orkugjafa en Íslendingar endurnýjanlega orku. Framkvæmdstjóri Landverndar opinberaði fullkomna vanþekkingu sína á hagfræði þegar hún hélt því fram að framleiðslan á Íslandi hafi valdið lækkun á heimsmarkaðsverði og valdið því að endurvinnsla áls hafi nánast stöðvast í heiminum. Engin skilningur á framboði og eftirspurn og viðurkenning á því að lokun álvera á Íslandi mun ekki minnka framboð, þar sem eftirspurnin mun ráða för. Einnig má bæta því við að enginn málmur er meira endurunninn í heiminum en ál.

Þetta sama fólk hefur með endalausum kærum staðið gegn virkjanaframkvæmdum sem þó munu skila miklum árangri í loftslagsmálum, margföldum við að rafvæða bílaflotann. Það hefur með ofbeldi staðið gegn uppbyggingu flutningkerfisins sem kostar þegar mikil töp við dreifingu orku um landið og veldur miklu óöryggi á afhendingu sem er einn þáttur í að letja menn til að fara í orkuskipti.

Það hefur sem dæmi ekki gengið lítið á þar sem þetta sama fólk hefur barist gegn virkjun Hvalár og notað til þess opinbert fé, virkjun sem er staðsett utan jarðskjálfta- og eldgosa svæða, og mun hafa umtalsverð áhrif á raforku öryggi Vestfjarða og opna leið til að virkja í Ísafjarðardjúpi. Það blasir nú við að umhverfisvæn framleiðsla á kalkþörungum í Súðavík mun nota gas sem orkugjafa en ekki umhverfisvænt rafmagn, einmitt vegna þessa.

Sömu aðilar hafa barist með hnúum og hnefum gegn fiskeldi á Íslandi og nýtt sér áróður sem minnir helst á stjórnmálastefnu á fyrri hluta síðustu aldar, þar sem sannleikur og staðreyndir skiptir engu mál. Sannleikurinn er sá að ef við ætlum að fæða níu milljarða manna á jörðinni er engin leið til þess nema nota ræktun og eldi í sjó. Miðað við framleiðslu á próteini stendur engin eldisframleiðsla fiskeldi á sporði hvað varðar umhverfisvæna framleiðslu; ef hins vegar er litið til framleiðslu á kaloríum þá veldur framleiðsla á grænmeti meiri losun en fiskeldi.

Við höfum séð „umhverfissinnana“ standa gegn framförum í samgöngum sem þó eru einn lykilþáttur í að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda. Í tæp tuttugu ár þvældust þau fyrir eðlilegum og nauðsynlegum vegabótum fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum, af ástæðum sem erfitt er að skilja.

Nú blasir við dæmi sem spennandi verður að fylgjast með næstu misserin. Þýskt fyrirtæki fyrirhugar mikla námuvinnslu á vikur á Mýrdalssandi, og ætlunin er að flytja út milljón tonn á ári. Þetta mun klárlega auka útblástur gróðurhúsaloftegunda á Íslandi, en spara það verulega á heimsvísu. Þó að þurfi 30 trukka til að aka vikrinum um 180 km leið í skip, mun þetta draga úr notkun á sementsgjalli í steypuframleiðslu í Evrópu sem veldur mikilli losun á koldíoxíðs við framleiðsluna. Hvernig mun þetta öfgafólk tækla þetta? Kannski er bara verðmætasköpunin við námuvinnsluna sem fer mest í taugarnar á þeim?

Til að bíta höfuðið af skömminni nefndi umhverfisráðherra sjávarútveg á Íslandi sem dæmi um umhverfissóða. Sjávarútvegur hefur tekist á við loftslagsmálin af mikilli festu undanfarin ár. Með skilvirku stjórnkerfi fiskveiða og fjárfestingunum í nýjum skipum og búnaði hefur útblástur gróðurhúsalofttegunda dregist verulega saman á hvert veitt tonn, tala nú ekki um verðmæti. Enginn sjávarútvegur stenst samanburð við þann Íslenska í þessum efnum.

Það kom fram nokkrum sinnum í umræddum Sprengisandsþætti  að þó loftslagsmálin væru mikilvæg þá voru ráðherra og framkvæmdstjóri Landverndar tilbúin að setja þau í annað sætið, þegar kemur að ýtrustu kröfum þeirra um „landvernd“.  Nú er það auðvitað svo, að flest sem við gerum veldur einhverjum áhrifum á umhverfið. Við verðum hins vegar að geta tekið skynsamlega umræðu um hvort ávinningurinn sé meiri en kostnaðurinn. Við munum aldrei komast áfram með öfgafullri og rakalausri umræðu um loftslagsmálin. Það þarf að sameina fólk í þeim breytingum sem við þurfum að gera til að snúa þessari þróun við. Málflutningur sem minnir oft á Talibana er ekki til þess fallinn, þvert á móti sundrar það fólki og hægir þannig á skynsamri og lífsnauðsynlegri þróun. Það tók einmitt Talibana aðeins fimm ár að rústa efnahag Afganistans þegar þeir voru þar síðast við völd. Einmitt vegna öfga, einstrengisháttar og afneitun á viðtekinni þekkingu í efnahagsmálum.

Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur

 

 

 

DEILA