Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur sent bréf á öll sveitarfélög landsins sem varðar innheimtu á dráttarvöxtum vegna fasteignaskatta í því tímabili þegar skuldari hefur sótt um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og þar til umboðsmaður hefur tekið afstöðu til umsóknarinnar.
Ráðuneytið tók til athugunar innheimtuna til athugunar vegna innheimtu Reykjavíkurborgar á dráttarvöxtum vegna fasteignaskatta við þessar aðstæður.
Tildrög málsins voru þau að með dómi Hæstaréttar, frá 8. mars 2018 í máli nr. 159/2017, var komist að þeirri niðurstöðu að kröfuhöfum væri ekki heimilt að reikna dráttarvexti á almennar kröfur á umræddu tímabili, en ráðuneytinu barst ábending um að Reykjavíkurborg og mögulega önnur sveitarfélög töldu að önnur sjónarmið kynnu að eiga við um kröfur um fasteignagjöld.
Niðurstaða ráðuneytisins er að sveitarfélögum er ekki heimilt að reikna dráttarvexti á kröfur um fasteignaskatta á því tímabili sem skuldari þeirra er í greiðsluskjóli og þau sérsjónarmið sem eiga við um fasteignaskatta breyta engu þar um. Í álitinu er einnig reifað að hafi sveitarfélag innheimt dráttarvexti af einstaklingi í greiðsluskjóli skal það eiga frumkvæði að því að greiða oftekið fé til baka.
Óskar ráðuneytið eftir því við sveitarfélögin að þau upplýsi ráðuneytið um það hvort innheimtir hafi verið dráttarvextir hjá þeim sem hafa fengið greiðsluskjól á grundvelli laga um um greiðsluaðlögun einstaklinga og hvort málsmeðferð hafi verið í samræmi við þau lög.
Að fengnum þeim upplýsingum verður lagt mat á hvort tilefni er til að taka stjórnsýslu einstakra sveitarfélaga til formlegrar umfjöllunar.