Patreksfjörður: vatn í olíudælum N1

Patreksfjordur: N1 fyrir miðju. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Talsvert reyndist vera af vatni í hráolíutönkum við olíudælur N1 á Patreksfirði, með þeim afleiðingum, að vatn fór á eldsneytistanka um 50 bíla yfir verslunarmannahelgina. Bílarnir áttu við gangtruflanir að stríða en þær eru ekki taldar alvarlegar eftir því sem næst verður komist.

Ríkharð Sigurðsson hjá Olídreifingu segir að stór birgðatankur við höfnina hafi verið farinn að leka. Búið sé að tæma hann og var olíunni dælt um borð í Keili og flutt til Ísafjarðar þar sem vatnið verður skilið frá. Hann segir að viðgerð klárist í dag og gerir ráð fyrir að olía verði komin aftur í tankinn um helgina.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta var um átta tonnum af vatni dælt í tankinn og til þess notaður tankbíll slökkviliðsins. Þar sem olían er léttari en vatn stöðvaði þetta olíuleka úr tankinum. En síðan var olía flutt úr þessum tanki á tankana við olíudælur N1 þar sem viðskiptavinir keyptu sér vatnsblandaða olíu á bíla sína.

N1 hefur ekkert látið frá sér fara um atvikið.

DEILA