Landsnet vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemd varðandi styrkingu flutningskerfisins á Vestfjörðu og Hvalárvirkjun:
„Undanfarna daga hefur verið töluverð umræða hér á www.bb.is um styrkingu flutningskerfisins á Vestfjörðum og Hvalárvirkjun, hvar málið sé statt og hver séu næstu skerf. Er boltinn hjá Landsneti eða Vesturverki? Svarið er í raun einfalt – við þurfum að ganga frá kostnaðarhliðinni á verkefninu til að geta haldið áfram með það. Við hjá Landsneti erum í biðstöðu með undirbúning vegna þess að Vesturverk hefur ekki gert við okkur skuldbindandi samning um tengingu Hvalárvirkjunar við tengipunktinn sem setja á upp í Ísafjarðardjúpi.
Við höfum lengi talað fyrir mikilvægi þess að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum og lagt fram tillögur í okkar Kerfisáætlun sem samþykktar hafa verið af Orkustofnun og eru í fullu samræmi við raforkulög. Þegar kemur að Vestfjörðum höfum við bent á að ákjósanleg leið til að auka öryggi á svæðinu sé að virkja, samfara styrkingu á flutningskerfinu. Fram undan eru kostnaðarsamar aðgerðir við undirbúning á tengingu Hvalárvirkjunar við tengipunktinn í Djúpinu og það er ekki okkar hlutverk að fjármagna þann hluta né höfum ekki heimild til að gera það. Fyrir okkur skiptir máli að vera samhliða framkvæmdaaðilum, hvorki á undan né á eftir, og vinna í fullri samvinnu við þá og samfélagið á svæðinu. Til að hreyfast úr biðstöðu og halda áfram undirbúningi þarf að ljúka samningum við Vesturverk.“