Árlegt málþing Tungumálatöfra fór fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í síðutu viku undir yfirskriftinni: Íslenskukennsla í fjölmenningarsamfélagi. Eliza Reid forsetafrú opnaði málþingið. Forsetafrúin sagði að íslenskan væri skemmtilegt og fallegt tungumál sem yrði bara betra með framlagi innflytjenda og því væri mikilvægt að auka aðgengi að íslenskunámi fyrir alla. Hún sagði verkefni eins og Tungumálatöfra sem kæmi fram með hugmyndir um hvernig betrumbæta megi íslenskukennslu fylla hana bjartsýni.
Tækifæri en ekki vandamál
Í framsöguerindum dagsins sýndu kennarar Tungumálatöfra hvernig lifandi námsefnisgerð virkar og bentu á mikilvægi þess að viðurkenna tungumál og bakgrunn barna með íslensku sem annað mál. Þau greindu einnig frá þróun vefskóla sem er í bígerð á vegum verkefnisins og faraldurinn kennt okkur hvernig má nota vefinn betur í þessum efnum.
Renata Emilsson Pesková kynnti niðurstöður í rannsókn sinni á skólareynslu fjöltyngdra nemenda. Hún benti á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir öllum tungumálum og að heimili setji sér tungumálastefnu til þess að halda utan um móðurmál barnanna sinna.
Í erindi sem Donata Honkowicz Bukowska sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu flutti um stefnu og aðgerðir vegan menntunar barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn sagði hún að mikil þörf væri á að styrkja þennan hóp í gegnum skólakerfið.
Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri á Bolungarvík sagði mikilvægt að draga fram þau tækifæri sem liggja í því að kunna fleira en eitt tungumál. Hann sagði þó að aðgerðir virtust stundum ómarkvissar og kallaði eftir betri verkfærum til að framfylgja þeirri stefnu sem samþykkt hefur verið.
Niðurstöður hópavinnu sem málþingsgestir tóku þátt í var að kalla eftir samstarfi stjórnvalda, atvinnulífs, skólakerfisins og heimilanna til þess að tryggja að sem mestur árangur verði af íslenskukennslu barna sem íslensku sem annað tungumál.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lokaði málþinginu. Hún sagði verðmæti í innflytjendum og verðmæti í íslenskri tungu og því ætti það að vera metnaðarmál bæði stjórnvalda og atvinnulífsins að gæta að íslenskunni og tryggja jöfn tækifæri allra.