Út er komin spurningabók eftir Gauta Eiríksson frá Stað á Reykjanesi í Reykhólasveit sem heitir Hvað veistu um Ísland. Bókinni er skipt upp eftir landshlutum og eru léttar, miðlungs, og erfiðar spurningar um hvern landshluta. Það eru fjölmargar ljósmyndir í bókinni úr öllum landshlutum sem Gauti hefur tekið. Þetta er lítil og handhæg bók til að hafa í bílnum, heima eða hvar sem er til að spreyta sig á því hvað maður veit um Ísland.
Í inngangi að bókinni segir Gauti:
„Ég er uppalinn vestur í Reykhólasveit og pabbi, Eiríkur Snæbjörnsson, kenndi mér og systrum mínum strax að umgangast landið af virðingu. Hann var mjög fróður um staðhætti og örnefni og vildi miðla þekkingu sinni áfram. Það var sama hvort að við vorum úti í eyjum, uppi á fjalli eða á ferðalagi um landið; hann kenndi okkur hvað fjöll og firðir, hæðir, holt og vötn hétu og hlýddi okkur svo yfir.
Ég bý að þessum fróðleik enn í dag og geri mitt besta í að miðla honum áfram til barnanna minna og vekja hjá þeim þann áhuga sem pabbi kveikti í mér. Þegar ég fór að ferðast sjálfur á fullorðinsárum fór ég að taka ljósmyndir líka og mér fannst það dýpka enn meira skilning minn og áhuga á landinu. Ég fékk það fljótt á tilfinninguna að það að njóta Íslands væri eitthvað sem ég gæti hugsað mér að gera í mun meiri mæli. Og því hef ég starfað sem bílstjóri og leiðsögumaður í rúm tuttugu ár, samhliða starfi mínu sem grunnskólakennari.
Nú, þegar ferðalög innanlands hafa aukist mikið, er það markmið mitt að reyna að smita fleiri af þessum áhuga mínum á Íslandi, örnefnum og ljósmyndun. Upplifunin verður svo mikið sterkari þegar að maður þekkir umhverfið. Eða eins og Tómas Guðmundsson sagði: „Landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt“.“