Arnarlax fær BRC vottun fyrir vinnsluna á Bíldudal

Arnarlax fékk í síðasta mánuði BRC (British Retail Consortium) matvælaöryggisvottun fyrir vinnsluna á Bíldudal.

Vottunin er fyrir unninn lax sem fellur undir vöruflokkinn Hráar fiskafurðir og undirbúningur samkvæmt flokkun BRC. Laxinn er unninn í vinnslu Arnarlax á Bíldudal og gildir vottunin frá 14.07.2021 til 12.01.2022.

Fyrirtæki með BRC vottun fara í endurúttekt árlega eða þá hálfsárslega eftir því hvaða einkunn fyrirtækið hlaut í fyrstu úttekt.

Silja Baldvinsdóttir, gæðastjóri hjá Arnarlax segir að BRC vottun sé samþykkt af GFSI (Global Food Safety Initiative) sem þýðir það að ferlar í vinnslu standast gæða- og matvælaöryggiskröfur á alþjóðlegum vettvangi. „Viðskiptavinir geta treyst því að laxinn okkar er unnin og meðhöndlaður á sem bestan hátt með gæði og matvælaöryggi í fyrirrúmi frá því að laxinn kemur inn til vinnslu og þangað til að hann er kominn til viðskiptavinar. Vottunin eykur ímynd og traust til okkar sem framleiðanda.“

Frekari upplýsingar um um vottunarferlið má finna á heimasíðu BRCGS.

DEILA