Verðmæti laxveiðiréttindanna í þremur ám í Ísafjarðardjúpi er um 100 milljónir króna samkvæmt mati á þeim í skrá Þjóðskrár Íslands. Veiðiréttindin í Laugardalsá eru 65 m.kr. og í Langadalsá og Hvannadalsá eru réttindin metin saman samtals 35 m.kr.
Átta jarðir eru skráðar fyrir veiðiréttindum í Laugardalsá og einnig átta jarðir eiga réttindi í Langadalsá/Hvannadalsá, en þær ár eiga sameiginlegan ós.
Þetta verðmætamat er ekki í samræmi við veiðarnar síðustu áratugina. Meðaltalsveiði úr Laugardalsá frá 1984-2020 er 281 lax, en úr hinum ánum tveimur er meðaltalið samtals 310 laxar.
Samkvæmt þessu mati gefur 100 laxa meðalveiði í Laugardalsá mat upp á 23,1 m.kr. en samsvarandi 11,2 m.kr. í Langadalsá/Hvannadalsá. Fasteignamat veiðihlunnindanna í Laugardalsá er því tvöfalt hærra en í Langadalsá/Hvannadalsá, sem er athyglisvert í því ljósi að verðmeiri áin varð ekki laxageng fyrr en eftir 1969 þegar sprengdur var farvegur í ánni. Með öðrum orðum tilbúna og manngerða áin er mun verðmætari en hinar sem eiga þó að vera náttúrulegar.
Laugardalsá | |
jörð | mat 2021 |
Strandsel | 8.160 |
Blámýrar | 8.160 |
Hrafnabjörg | 8.160 |
Laugaból | 8.160 |
Birnustaðir | 8.160 |
Hagakot | 8.160 |
Efstidalur | 8.160 |
Eiríksstaðir | 8.160 |
Samtals milljónir króna: | 65.280 |
Langadalsá/Hvannadalsá | mat 2021 |
Kirkjuból | 7.030 |
Bakki fremri | 4.550 |
Bakki neðri | 4.200 |
Brekka | 3.670 |
Arngerðareyri | 4.900 |
Bakkasel | 4.650 |
Tunga | 3.710 |
Rauðamýri | 2.640 |
Samtals milljónir króna | 35.350 |
Alls | 100.630 |
Eldisræktin a.m.k. 500 sinnum verðmætari
Annað athyglisvert má lesa út úr þessum opinberu gögnum um verðmæti veiðihlunnindanna. Í fyrsta lagi er skráð fasteignamat byggt á markaðsverði. Það á að endurspegla það verð sem markaðurinn er tilbúinn að greiða fyrir þessi réttindi. Markaðsverðið á stangveiðiréttindunum er því um 100 milljónir króna samtals fyrir þessar þrjár ár sem Hafrannsóknarstofnun hefur tekið að sér að vernda sérstaklega.
Í Ísafjarðardjúpi leyfir burðarþolsmat að ræktuð verði 30 þúsund tonn af laxi og eru þá Jökulfirðirnir ekki taldir með. Fyrirtæki sem eru komin af stað í fiskeldinu eru talin mjög arðvænleg á hlutabréfamarkaði og seljast hlutabréf í þeim fyrir hátt verð. Sem dæmi má nefna að Arnarlax, sem hefur sótt um leyfi fyrir laxeldi í Djúpinu, en er einkum með sína starfsemi á sunnanverðum Vestfjörðum, hefur leyfi fyrir um 25 þúsund tonna framleiðslu á ári. Það er komið á opinn hlutabréfamarkað í Noregi og er metið á um 50 milljarða króna.
Af þessu má ætla með nokkurri vissu að verðmæti 30 þúsund tonna framleiðsluréttinda í Djúpinu sé metin á markaði á 50 – 60 milljarða króna.
Þá er hægt að bera saman þetta tvær atvinnugreinar stangveiði og fiskeldi. Ljóst er að fiskeldið er á markaði metið a.m.k. 500 sinnum verðmætara. Markaðurinn er í þessu samhengi svar þeirra sem hætta peningunum sínum , taka raunverulega áhættu með eigið fé, svo það er ekki hægt að líta framhjá því.
En einu má ekki gleyma í þessu, að þessar tvær atvinnugreinar eru ekki andstæður, það er ekki annaðhvort önnur eða hin, heldur eru allar forsendur til þess að gera hvort tveggja og hafa hag af báðum.
-k