Vegagerðin: Rífandi gangur í vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum

Vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, júní 2021.

Vegagerðin hefur sent frá sér samantekt um framkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar segir að unnið sé eftir áætlun. Þar kemur fram að ekki hafi orðið tafir á framkvæmdum heldur sé búið að vinna fyrir 800 m.kr. umfram framlög í samgönguáætlun.

Samantektin er eftirfarandi:

„Mikill gangur er í vegagerð um Dynjandisheiði og annarsstaðar á sunnanverðum Vestfjörðum.  Unnið er á Dynjandisheiði beggja vegna, þá er líka unnið við þverun Þorskafjarðar, vegagerð í Gufufirði, útboð er á leiðinni vegna vegagerðar í Djúpafirði auk þess sem stefnt er að því að bjóða fljótlega út fleiri áfanga í Gufudalssveitinni.

Fyrsti áfangi fyrir Dynjandisheiði var boðinn út í júlí 2020.  Samið var við ÍAV hf. um verkið og hófust framkvæmdir í október 2020 við veginn um Þverdalsá ofan við Pennu í Vatnsfirði.  ÍAV hf. réð síðan Suðurverk hf. sem undirverktaka við framkvæmdir um Meðalnes í Arnarfirði en vinna hófst þar um mánaðarmótin janúar/febrúar 2021. Áætlað er að ljúka verkinu núna í september.  Áætlaður kostnaður við undirskrift voru tæpir 2,4 milljarðar króna.

Ákveðið hefur verið að leita eftir framkvæmdaleyfi fyrir viðbót við núverandi framkvæmd. Viðbótin er 2 km að lengd. Við það dettur út einbreið brú og veglína verður umtalsvert betri ásamt bættum vegamótum við Bíldudalsveg en þar er ætlunin að byggja upp 600 m kafla. 

Varðandi áframhaldið þá er næsti áfangi 12 km langur og er hann á áætlun á árinu 2022 en það er 2-3 ára verkefni.  Í þessum hluta yrði einnig frágangur á áðurnefndri 2 km viðbót (burðarlög og slitlag). Framkvæmdasvæðið er frá nýbyggingu við Þverdalsá og nánast að Neðra-Eyjarvatni en verklok á þessum áfanga gætu orðið undir árslok 2023 eða snemma árs 2024. 

Síðasti áfanginn á heiðinni er 7 km langur og er á áætlun 2023 en það er 1-2 ára verk.

Vegagerðin metur jafnt og þétt hversu hratt er hægt að fara fram með framkvæmdir en það ræðst bæði af ferlinu við undirbúning verkanna og því hversu mikið fjármagn stendur til boða. Vegagerðin metur þessa kosti og flýtir verkum séu aðstæður með þeim hætti að svigrúm skapist til þess. Nokkuð hefur borið á því í umræðu að tafir séu á framkvæmdum á Dynjandisheiði, þetta er alrangt. Hið rétta er að framkvæmdir hafa gengið vel og eru framar væntingum. Þannig verður búið að framkvæma fyrir 800 m.kr. umfram fjárframlög í samgönguáætlun við lok þessa árs. Hvort mögulegt verður að flýta þeim útboðum sem að framan eru talin verður að ráðast af framvindu verka og þróun almennt.“ 

Vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, júní 2021. Mynd: Vegagerðin.

DEILA