Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að lagning 66 kV jarðstrengs milli Mjólkár og Bíldudals og sæstrengs yfir Arnarfjörð skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.
Lagnaleiðin þverar nokkrar ár og læki, s.s. Litlueyrará við Bíldudal, Geldingadalsá á milli Auðkúlu og Hrafnseyrar, Gljúfurá og Hófsá í botni Borgarfjarðar. Árnar verða þveraðar með því að grafa þrjú ídráttarrör undir farvegina og fergja þau og skorða undir árbotninum. Jarðstrengurinn verður grafinn á um 1 m dýpi og lagður í sérstakan varmaleiðandi strengjasand. Sæstrengurinn verður lagður út ofan á botninn með sérútbúnu skipi til verksins.
Slóðagerð verður lágmörkuð eins og kostur er með því að nýta fyrirliggjandi slóðir og vegi og í tilfelli strenglagnar norðan Arnarfjarðar mun strengurinn liggja í eða utan í þjóðveginum nema á stuttum kafla næst Auðkúlubót þar sem
strengurinn fer niður að ströndinni. Sunnan fjarðar mun strengurinn fylgja þjóðveginum frá ströndinni vestan við Haganes að botni Bíldudalsvogar sunnan megin en fara þaðan með hlíðinni og þvera dalinn að mestu í jaðri túna og annars ræktaðs lands. Í túnum og þurru, grónu landi er ekki reiknað með slóðagerð ef mögulegt er að komast hjá því. Þar sem land er blautt getur þurft að leggja slóðir og umfang getur því verið háð tíðarfari.
Í umsögnum sem borist hafa koma ekki fram alvarlegar athugasemdir við þessa framkvæmd.
Náttúrustofa Vestfjarða hefur kannað svæðið með tilliti til fuglalífs og Minjastofnun bendir á að gera þurfi minjaverði Vestfjarða grein fyrir niðurstöðum fornleifaskráningar þegar hún liggur fyrir.
Ef rétt er staðið að framkvæmdum er ólíklegt að mati Hafrannsóknastofnunar að umtalsverð neikvæð áhrif verði á lífríkið í firðinum eða á veiðinýtingu þeirra áa sem til stendur að þvera.
Skipulagsstofnun bendir þó á að áform eru um stofnun þjóðgarðs á Vesturfjörðum og mun lagning jarðstrengs frá Mjólká að landtaki í Auðkúlubót verða að hluta innan marka þjóðgarðs. Gangi þau áform eftir er framkvæmdin háð leyfi Umhverfisstofnunar.
Samkvæmt 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum má kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til 30. ágúst 2021.