Á árinu 1956 hófu Rafmagnsveitur ríkisins byggingu virkjunar í Mjólká sem nýtti fallið úr Borgarhvilft niður í Borgarfjörð, u.þ.b. 210 m. Miðlun í vatninu er 0,35 Gl, heildarlengd á stíflum 470 metrar og yfirfall 30 metra langt. Þrýstipípan er 987 metrar úr stáli. Þvermál efst 800 mm og neðst 700 mm. Virkjunin tók til starfa 1958.
Á árunum 1958 til 1960 lauk tengingu Mjólkárvirkjunar við kauptúnin frá Patreksfirði til Bolungarvíkur, ásamt tengingu við Reiðhjallavirkjun. Hér er um allmikið línukerfi að ræða sem liggur yfir hinar háu heiðar Vestfjarða með sæstrengi yfir ála Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Þessi veita var nefnd Mjólkárveita.
Á árinu 1972 hófu Rafmagnsveitur ríkisins síðan undirbúning að annarri virkjun í Mjólká sem nýtir fallið úr Langavatni og niður í Borgarfjörð, u.þ.b. 490 m.
1971 til 1972 var byggð 280 metra löng stífla og 70 metra yfirfall við Langavatn í landhæð 496 metrum y.s.. Skurður grafin yfir í Hólmavatn og þannig náðist 3,2 Gl miðlun. Fyrst nýttist miðlunin fyrir Mjólká I, en fyrir Mjólká II þegar stækkun virkjunarinnar var lokið.
Framkvæmdir hófust við byggingu Mjólká II 1973 og þar með talin Tangavatnsmiðlun í landhæð 560 metrum y.s. og er 1,2 Gl. Þrýstipípan er 3.980 metra löng úr stáli með 900 mm víða pípu efst og 700 mm neðst.
Árið 1976 var Hofsárveita gerð til að auka innrennsli í Borgarhvilftarvatn inntakslón Mjólkár I til að bæta að hluta upp töpuðu innrennsli vegna Mjólkár II. Það var gert með því að byggja stíflu í Hofsánni fyrir botni Hofsárdals og veita vatninu í Borgarhvilftarlæk um 2.320 metra langa pípu og 525 m langan veituskurð.
Þann 1. Janúar 1978 var Orkubú Vestfjarða stofnað og tók við rekstri Mjólkárvirkjunar og þá var virkjunin 8,1 MW. Mjólká I 2,4 MW og Mjólká II 5,7 MW.
Byggingu Vesturlínu var lokið 1980 og þar með komst Mjólkárveita í tengingu við landskerfið. Fram að þeim tíma var Mjólkárvirkjun grunnaflstöð fyrir svæðið en nú framleiðir stöðin beint inná kerfi Landsnets.
2011 var vél fyrir Mjólká II frá 1975 skipt út fyrir 7 MW vél. Aflaukningin var möguleg vegna betri nýtni og umfram flutningsgetu pípunnar.
2016 var Pelton vél fyrir Mjólká I frá 1958 skipt út fyrir 3 MW Francis vél. Með þessu er aflaukning virkjunarinnar orðin 3,1 MW frá því endurbyggingin hófst 2010 og samtals er virkjunin 11,2 MW.
Af vefsíðu Orkubús Vestfjarða