Minning – Margrét Hagalínsdóttir

               f. 12. febrúar 1927 – d. 17. júlí 2021.

               Útför frá Háteigskirkju í Reykjavík

               föstudaginn 30. júlí kl. 10,00.

               Frú Margrét ljósmóðir og prestkona á Ísafirði var upprunnin norður í mynni Jökulfjarða vestanverðu þar sem heitir Grunnavík og vetur verða harðir og miskunnarlausir með hamförum hafsins, snjóalögum, hríðarbyljum og náhljóðum í hafísnum. 

               Prófastshjónin tóku nýliðum í prestastétt sem væru þeir eigin börn þeirra.  Síra Sigurður, loflegrar minningar, var vakinn og sofinn yfir velferð kollega sinna, mikið í mun að þeir væri ekki hlunnfarnir,  en frú Margrét framúrskarandi glaðhittin og gestrisin, bugaði jafnan góðu að komumanni. Reyndar voru klerkarnir á norðanverðum Vestfjörðum myndarlega kvæntir um miðja öldina sem leið; síra Stefán á Þingeyri frú Guðrúnu, síra Lárus í Holti frú Sigurveigu, síra Jóhannes á Stað frú Aðalheiði og síra Baldur í Vatnsfirði frú Ólafíu.

               Frú Margrét var exemplarísk manneskja og góðkvendi, myndarkona, vel verki farin, kímin og aðhlægin.  Nágrannaprestur fékk að sitja í hjá manni hennar til Reykjavíkur og voru þeir þrjá daga á leiðinni og gistu hjá starfsbræðrum tvær nætur.  Frú Margrét kvaðst hafa af kennimönnunum nokkrar áhyggjur, og hafði orð á þessu við frú Veronicu í Bolungarvík, enda kynni hvorugur þeirra að skipta um dekk.  Sjálf var hún forkur dugleg, lék sér að því að bólstra húsgögn, stoppa upp og draga áklæði á viðhafnarmubblur og þannig yfirdekkti hún forláta sófasett fyrir sæmdarhjónin Sigríði og Ragnar H. Ragnar.

               Dætur eignuðust hjónin þrjár og frú Margrét son fyrir hjónaband.  Prestur í prófastsdæminu sagði að eins og þau væru nú góð heim að sækja  frú Margrét og síra Sigurður, þá væri varla hægt að koma til þeirra fyrir látunum í yngstu telpunni; hún kæmi til dyra og ræki upp þessar líka skaðræðis sópran-strófur (con forza – molto vibrato); hún hafði erft hermi-gáfu móður sinnar og gleypti eftir frúnum í kórunum.  Ein dætranna  sagði, að fyrst þessi strákur í Bolungarvík gæti verið prestur ætti hún að geta það líka, handa annarri keyptu foreldrarnir konsert-flygil og meðleikari Íslands sagði, eins og hann var alltaf vanur, að þetta væri líklega besti flygill landsins, flygill allra flygla, eins konar platónsk frummynd flygilsins, himneskur flygill,  áþreifanlegur og eilífur í senn, sem allir aðrir flyglar væru aðeins ófullkomnar og forgengilegar eftirmyndir hans.

               Frú Margrét hafði eftir tónlistarskólastjóranum á Ísafirði, lék takta hans og hermdi eftir þingeysk/amrískum framburðinum:  “Dóttir þín er ákaflega mJÚsíkölsk teLPa og vel þess virði, að henni sé siNNt.”

               Skemmtilegasti prestur landsins, mætismaðurinn ógleymanlegi, síra Baldur í Vatnsfirði, var á ferð á Ísafirði erinda sinna.  Kvaðst hann ekki hafa tóm til þess að þiggja kvöldskatt hjá prófastshjónunum að  sinni, en beiddist þess aftur á móti að vera nætursakir.  Um þetta féllu síra Baldri svo orð: “Ég borða ekki hjá þér í kvöld, góða, en ég sef hjá þér í nótt.” Þetta var nú aldeilis eitthvað fyrir frú Margréti að hlæja að.  

 Guð blessi minningu góðrar konu, sem var happ í mannfélagi Ísfirðinga.  Hann verndi og styrki ástvini hennar alla.

                                                                                         Gunnar Björnsson,

                                                                                         pastor emeritus.

DEILA