Merkir Íslendingar – Sigríður J. Ragnar

Sigríður J. Ragnar var fædd á Gautlöndum í Mývatnssveit þann  26. júlí 1922.

Dóttir hjónanna Jóns Gauta Péturssonar bónda þar og konu hans, Önnu Jakobsdóttur frá Narfastöðum.

Sigríður átti þrjú systkini:  Ásgerður kennari;  Böðvar, bóndi á Gautlöndum; Ragnhildur skrifstofumaður.

Sigríður giftist 1945 Ragnari H. Ragnar, f. 28.9.1898, d. 24.12.1987. Foreldrar hans voru Hjálmar Jónsson frá Skútustöðum við Mývatn, bóndi á Ljótsstöðum í Laxárdal, og kona hans, Áslaug Torfadóttir frá Ólafsdal.

Börn Sigríðar og Ragnars:

Anna Áslaug, f. 7.11.1946, píanóleikari;

Sigríður, f. 31.10.1949, f.v skólastjóri Tónlistarskólans á Ísafirði;

Hjálmar Helgi, f. 23.9.1952, tónskáld.

Eftir gagnfræðapróf frá Menntaskólanum á Akureyri hóf hún nám við Kennaraskólann í Reykjavík haustið 1944. Þá um veturinn kynntist hún Ragnari Hjálmarssyni Ragnar sem hér var staddur sem hermaður í Bandaríkjaher. Þau giftust sumarið 1945 og fluttu til Norður-Dakóta í Bandaríkjunum þar sem þau störfuðu við tónmennt til ársins 1948. Þá bauðst Ragnari staða við nýstofnaðan Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þau störfuðu við skólann til dauðadags og sköpuðu nánast úr engu einn öflugasta og þekktasta tónlistarskóla landsins.

Auk þess að vera framarlega í menningarmálum staðarins fengu þau fjölda listamanna til að heimsækja Ísafjörð og var heimili þeirra, sem Sigríður stjórnaði af einstökum dugnaði, allt í senn; skóli fyrir á annað hundrað börn, miðstöð menningarmála og heimili listamanna sem bæinn heimsóttu.

Sigríður var helsti frumkvöðull að stofnun vestfirskra náttúruverndarsamtaka og í stjórn þeirra.

Hún vann einnig ötullega að stofnun Kvennalistans á Ísafirði. Þá sat hún í Menningarráði Ísafjarðar í fjölda ára auk annarra trúnaðarstarfa.

Þeim hjónum var sýndur margháttaður og verðskuldaður sómi fyrir störf þeirra að menningar- og félagsmálum. Ragnar var kjörinn heiðursborgari Ísafjarðarkaupstaðar og var heiðursfélagi Tónlistarkennarafélags Íslands. Hann var sæmdur riddarakrossi og stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og Sigríður J. Ragnar hlaut riddarakross fálkaorðunnar.



Sigríður J. Ragnar lést þann 11. mars 1993.


Hjónin Sigríður J. Ragnar og Ragnar H. Ragnar.
 
Skráð af Menningar-Bakki.
DEILA