Jónmundur Júlíus Halldórsson fæddist á Viggbelgsstöðum í Innri-Akraneshreppi 4. júlí 1874. Foreldrar hans voru Halldór Jónsson húsmaður þar og í Hólmsbúð, síðast múrari í Reykjavík, og Sesselja Gísladóttir húsfreyja.
Halldór var sonur Jóns Halldórssonar, bónda á Eystra-Reyni og á Króki á Akranesi, og k.h., Þuríður Bjarnadóttir, en Sesselja var dóttir Gísla Jóhannessonar, bónda í Bæ í Miðdal og á Leysingjastöðum í Hvammssveit, og k.h., Guðfinnu Sigurðardóttur.
Kona Jónmundar var Guðrún húsfreyja, dóttir Jóns Guðmundssonar, bónda á Valdastöðum og í Eyrar-Uppkoti í Kjós, og Guðrúnar Kortsdóttur, forföður Möðruvallaættar Þorvarðarsonar.
Börn Jónmundar og Guðrúnar sem upp komust voru:
Guðmundur loftskeytamaður í Reykjavík; Sesselja, búsett á Stað í Grunnvík; Guðrún, hjúkrunarkona í Danmörku, og Halldór, búfræðingur, kennari og yfirlögregluþjónn á Ísafirði.
Jónmundur lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1896 og guðfræðiprófi frá Prestaskólanum árið 1900. Hann var aðstoðarprestur í Ólafsvík um skeið, fékk Barð í Fljótum 1903, Mjóafjarðarprestakall 1915, bjó þá í Þinghól í Brekkuþorpi, fékk lausn ári síðar en bjó þar áfram og réri til fiskjar á sumrin en var þingskrifari á Alþingi á vetrum.
Jónmundur varð sóknarprestur á Stað í Grunnavík 1918-54.
Jónmundur gekkst fyrir stofnun Kaupfélags Fljótamanna, sat þar í hreppsnefnd og var oddviti um skeið, var sýslunefndarmaður í Skagafirði 1908-15, oddviti Grunnavíkurhrepps og sat í sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu 1921-54, kenndi ungmennum og var virkur í ungmennafélagsstarfi og sundkennslu Grunnvíkinga.
Vestfirðingar kunna ógrynni skemmtisagna af séra Jónmundi, enda maðurinn góðmenni, rammur af afli, sérlundaður og orðheppinn.
Séra Jónmundur J. Halldórsson lést þann 9. júlí 1954.
Grunnavík í Jökulfjörðum á Vestfjörðum.. Staður í Grunnavík árið 1939. Ljósm.: Hjálmar R. Bárðarson. Skráð af Menningar-Bakki. |