Guðmundur Hermannsson fæddist á Ísafirði 28.7. 1925. Foreldrar hans voru Hermann K. Á. Guðmundsson, sjómaður og síðar verkamaður á Ísafirði, og k.h., Guðmunda K.S. Kristjánsdóttir, verkakona og húsfreyja.
Eiginkona Guðmundar var Herborg Júníusdóttir sem lést 2011 og eignuðust þau fjóra syni: Arnar, Grétar Júníus, Hermann og Rúnar.
Guðmundur stundaði nám við Gagnfræðaskólann á Ísafirði, lauk prófum frá Lögregluskólanum í Reykjavík 1954, stundaði nám hjá Scotland Yard á Englandi 1954, lauk prófum frá Metro Politan Police Driving School í London, frá Bureau of Narcotic and Dangerous Drugs í Washington DC í Bandaríkjunum og fór náms- og kynnisför til lögreglunnar í Svíþjóð 1982.
Guðmundur hóf störf hjá Lögreglunni í Reykjavík 1953, gegndi ýmsum stjórnunarstörfum þar, skipulagði t.d. slysarannsóknardeild og var forstöðumaður hennar, varð varðstjóri yfir varðsveit almennrar löggæslu 1961, var skipaður aðalvarðstjóri 1963, aðstoðaryfirlögregluþjónn 1966 og skipaður yfirlögregluþjónn 1978, varð þá yfir rannsóknardeild og síðan yfir almennri löggæslu og umferðardeild frá 1988. Þá kenndi hann við Lögregluskóla ríkisins í þrjá áratugi. Guðmundur lét af störfum fyrir aldurs sakir 1990.
Guðmundur var fjölhæfur íþróttamaður. Hann keppti í knattspyrnu og síðar í frjálsum íþróttum en hann var margfaldur Íslandsmeistari og methafi í kúluvarpi. Hann keppti margsinnis í kúluvarpi fyrir Íslands hönd, varð í 16. sæti á Ólympíuleikunum í Mexíkó árið 1968 og var kjörinn Íþróttamaður ársins af íþróttafréttamönnum árið 1967.
Guðmundur var sæmdur ýmsum heiðursmerkjum vegna lögreglustarfa og íþróttaafreka. Hann var mjög listfengur, lagði stund á skrautritun og eftir hann liggur fjöldi olíumálverka og ljóða.
Guðmundur lést 15. júní 2003.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður