Á árinu 2020, sem er stærsta ár Íslandsögunnar í framleiðslu og útflutningi á eldislaxi, voru flutt út rúmlega 24 þúsund tonn af eldislaxi. Sama ár fluttu frændur okkar í Færeyjum út rúmlega 59 þúsund tonn af laxaafurðum, eða ríflega tvöfalt meira en Íslendingar.
Vakin er athygli á þessu í fréttabréfi SFS.
Framleiðsla Færeyinga og Íslendinga er þó smámunir á við framleiðslu Norðmanna. Útflutningur á eldislaxi frá Noregi nam ríflega 1,1 milljón tonna á árinu 2020, sem jafnframt var metár í útfluttu magni. Andvirði útflutnings Norðmanna á eldislaxi var yfir 1.000 milljarðar íslenskra króna árið 2020, sem er meira en samanlagðar tekjur Íslendinga af vöru- og þjónustuútflutningi í fyrra.
Vægi laxeldis í landsframleiðslu landsanna er mjög mismunandi í löndunum þremur. Langhæst var það í Færeyjum á síðasta ári eða 41% af verðmæti vöruútflutnings, 9% í Noregi en aðeins 3% á Íslandi. Þessar tölur endurspegla að aðrar framleiðslugreinar en fiskeldi eru stórar í útflutningi í Noregi og á Íslandi en að Færeyingar búa við einsleitt hagkerfi sem byggir á sjávarútvegi og fiskeldi. Í Noregi eru það olíuiðnaðurinn sem skapar mikil verðmæti í þjóðarbúið og á Íslandi er það stóriðjan og áliðnaðurinn.