Morgunblaðið birtir í dag niðurbrot á einstök kjördæmi könnunar sem MMR vann fyrir Morgunblaðið. Könnunin var gerð með Spurningavagni MMR dagana 8. til 14. júlí, en þar svöruðu 945 manns frá 18 ára aldri, slembiúrtak úr hópi álitsgjafa MMR, sem endurspegla lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar.
Ekki eru gefnar nákvæmlega fylgistölur í Norðvesturkjördæmi en samkvæmt stöplariti sem birt er, er Sjálfstæðisflokkurinn með 27% fylgi í kjördæminu og hefur mest fylgi. Framsóknarflokkurinn mælist með 19% fylgi, og Samfylkingin 15%. Aðrir flokkar eru á bilinu 5% – 8% hver.
Miðflokkurinn mælist með 8%, Sósíalistaflokkur Íslands 6% og Viðreisn, Flokkur fólksins, Píratar og Vinstri græn með 5% hver.
Samkvæmt þessum tölum myndi Sjálfstæðisflokkurinn fá 3 þingmenn kjörna, Framsóknarflokkurinn 2 og Miðflokkurinn og Samfylking einn hvor. Ekki er lagt mat á hvaða flokkur er líklegastur til þess að fá jöfnunarþingsætið.
Fylgistölurnar eru ólíkar því sem sjá hefur mátt hjá Gallup í kjördæminu varðandi fylgi Vinstri grænna, samfylkingar og Pírata. Þar mælast Vinstri græn og Píratar með gott fylgi og örugg þingsæti en Samfylkingin mælist með lítið fylgi. Að öðru leyti eru kannanirnar áþekkar.