Ísafjörður: kvartað yfir hávaða á sparkvelli

Stjórn húsfélagsins að Grundargötu 2, 4 og 6 hefur sent bæjarráði Ísafjarðarbæjar erindi og kvartað yfir hávaða á sparkvelli við Grunnskóla Ísafjarðar. Farið er þess á leit að gerðar verði úrbætur á girðingu þeirri sem snýr að húsi þeirra. „Mikið ónæði er vegna hávaða sem myndast þegar bolta er sparkað í grindverkið. Glymur mjög hátt þegar það gerist, sem reyndar oft er. Veldur það íbúum miklum óþægindum. Oft hefur það borið við að fólk sé að leik fram yfir miðnætti bæði í fótbolta og körfubolta. Einnig þyrfti að setja upp skilti sem bendir fólki á að taka tillit og vera ekki með hávaða
seint að kveldi.“

Þá er farið fram á að athugað verði með annað efni í girðinguna en það sem nú er og myndi henta betur til þess að draga úr hávaða.

Bæjarráð vísaði málinu til úrvinnslu á umhverfis- og eignasviði.

DEILA