Indriði Aðalsteinsson bóndi á Skjaldfönn varð áttræður í vikunni. Hann var heima við á afmælisdaginn og greindi svo frá: „Veðurguðirnir voru ekki að spara sig hér í Skjaldfannardal í dag, !8-20 stiga hiti, bjartviðri og stinningsgola af s.v. sem hélt fluguni niðri, gestagangur, fólk bærilega haldið í mat og drykk , símtöl ófá og afmæliskveðjur svo hundruðum skifti á netinu.“ Færði hann þessa afmælisvísu til bókar:
Á ævi minnar flóknu ferð
flest mér gekk í haginn.
Þar á meðal þakka verð
þennan fyrir daginn.
Tveimur dögum seinna kom gestur sem hafði verið á ferð um Snæfjallaströnd og Grunnavík. Indriði greindir svo frá heimsókninni:
Enn þó hokri á ystu nöf
ekki byrgist ljóri
því sótti hingað sæll með gjöf
Seðlabankastjóri.
Í gær litu hér við Ásgeir Jónsson rithöfundur og kona hans Helga Viðarsdóttir og áttum við bráðskemtilegt og fróðlegt spjall saman. Þau voru nýkominn úr göngu út Snæfjallaströnd í Grunnavík, síðan yfir Staðarheiði, inn Höfðaströnd að náttstað á Flæðareyri og síðan yfir Dalsheiði til Unaðsdals. Fengu afbragðs veður og lofuðu mjög þennan fagra og fjölbreytilega gönguhring. Af gamallri reynslu get ég svo sannarlega tekið undir það. Fyrir réttum 45 árum veðjaði ég, þá staddur á Flæðareyrarhátíð við vin minn, Jónas í Æðey, að ég gæti hlaupið yfir Dalsheiði og verið mættur á hlaðinu í Unaðsdal hjá Kjartani og Stefaníu á 2 klukkustundum. Náði því á 1 kl.stund og 56 mín. og varð Jónas að borga fyrir mig inn á öll böll það sem eftir var sumars og þar að auki að hætta að reykja í bílnum hjá mér, sem honum þótti nú sýnu verra. Ásgeir gaf mér bók sína „Uppreisn Jóns Arasonar“ og er lestur þegar hafinn.
Nú hefur ekki rignt að gagni í 3 vikur og ekki seinna vænna að gróður fari að fá sinn lífsvökva.
Þurrkur brennir harðan hól
hættur geisla að tigna.
Nú er komið nóg af sól.
Nú má fara að rigna.