Guðrún Sigríður Steinþórsdóttir

Brekka í Dýrafirði og Guðrún Steinþórsdóttir. Mynd: Jóvina M. Sveinbjörnsdóttir /Bjarni Guðmundsson.

Guðrún Sigríður Steinþórsdóttir,

f. 1. mars 1938 – d. 14. júlí 2021.

Jarðsungin frá Þingeyrarkirkju 24. júlí 2021.

               Þegar komið er norður yfir Hrafnseyrarheiði liggur þjóðleiðin ofan við túnið á hinu forna býli Brekku í Brekkudal í Þingeyrarhreppi.  Þar bjuggu búi á öndverðri öldinni sem leið hjónin Árni Guðmundsson stýrimaður frá Ánanaustum í Reykjavík og Guðrún Margrét Júlía Steinþórsdóttir klæðskeri frá Brekku.  Þarna var tvíbýlt og bjuggu á móti þeim Árna og Guðrúnu hjónin Soffía Ásgeirsdóttir frá Bolungarvík og Andrés Guðmundsson frá Brekku og voru þau Guðrún og Andrés hálfsystkinabörn.

               Börn Árna og Guðrúnar voru fimm:  Guðmunda Ágústa húsfreyja á Þingeyri, faðir hennar var Jón Jóhannsson sjómaður þar; Steinþór bóndi á Brekku, faðir Guðrúnar, sem hér er minnst; Gunnar skipstjóri á Brekku; Gyða Ólafía kjólameistari annar eigandi Parísartískunnar í Reykjavík; og yngst var Áslaug húsfreyja í Þorbergshúsi á Þingeyri.

               11. mars 1941 varð sá hörmungaratburður að þýskur kafbátur réðist á línuveiðarann Fróða ÍS 454 frá Þingeyri um 200 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum.  Í skothríðinni sem stóð með hléum í fulla klukkustund féllu 5 skipverjar:  Steinþór, faðir Guðrúnar, Gunnar skipstjóri, föðurbróðir hennar, Guðmundur móðurbróðir hennar frá Hólum í Þingeyrarhreppi, Gísli, bróðir Andrésar á Brekku og Sigurður V. Jörundsson stýrimaður frá Hrísey.

               Dótturdóttir Árna og Guðrúnar, þá á fjórða árinu, minnist þess er síra Sigurður Z. Gíslason á Þingeyri gekk heim túnið á Brekku að flytja fólkinu þessa   sorgarfregn.

Og árin líða. Guðrún gekk að eiga góðan dreng, Hallgrím kennara og skólastjóra á Þingeyri Sveinsson, bónda á Hrafnseyri og Brekku.  Þau hjón voru staðarhaldarar á Hrafnseyri í rúm 40 ár og buðu ævinlega upp á myndarlegt kirkjukaffi eftir embætti hjá hinum ógleymanlega síra Stefáni sæla Eggertssyni, sóknarpresti á Þingeyri.  Mat prestur Guðrúnu enda mikils, en þótti að vísu sá ljóður á ráði hennar, að hún skyldi einlægt þurfa að bardúsa í kokkhúsinu rétt á meðan hann væri að syngja messuna.

               Þótt Guðrún væri viðbrigðagestrisin og ynni góðan beina hverjum sem að garði bar, hafði enda starfað fyrir innan stokk hjá Ásgeiri forseta á Bessastöðum, frænda sínum af Vigurætt,  hélt hún samt þeim sið fyrri húsfreyja í landinu að setjast ekki sjálf til borðs, heldur stóð hún og horfði þögul og alvarleg í bragði á það sem fram fór.

               Svo segir í Landnámabók, að Grélöðu hinni írsku, konu Ánar rauðfelds, þess er bú gerði á Eyri við Arnarfjörð, hafi þótt þar hunangsilmur úr grasi.  Undir það mun Guðrún Steinþórsdóttir hafa tekið heils hugar.  Hún var fæddur bóndi, sem kallað er;  þekkti hverja kind og hafði þessa varfærnu hönd sem grípur mjúklega um hornið á ánni neðst svo að brotni ekki; natin vökukona æðarvarps;  verksígjörn  með afbrigðum að hverju sem gekk og stórgjöful.

               Í mikilli þökk og bæn er Guðrún Steinþórsdóttir kært kvödd.   Guð gefi frið yfir legstað hennar og blessun yfir endurfundi hennar við þau, sem á undan henni  eru farin af þessum heimi.  Guð blessi minningu hennar og ástvinina alla.

                                                                                                       Gunnar Björnsson,

                                                                                                       pastor emeritus.

DEILA